Jæja, þá er ég komin með visum til Kína! Við förum á fimmtudaginn og komum vonandi heim á mánudag. Þið sem heima sitjið, skemmtið ykkur vel á "Halloween".
Alla síðustu viku var bókavika í skólanum hjá Sigrúnu Erlu. Þau lærðu um ýmsa rithöfunda, skrifuðu sína eigin bók og svoleiðis. Það var engin venjuleg heimavinna, heldur völdu allir sér bók við hæfi sem þeir áttu að klára á 5 dögum. Á fimmtudaginn skrifuðu þau svo ritgerð um bókina sem þau völdu og um kvöldið var lestrarvaka í skólanum. Þau komu heim úr skólanum á venjulegum tíma á fimmtudag, en kl. 8 um kvöldið mættu 5.-7. bekkur aftur í skólann með svefnpoka, nesti, bók og vasaljós. Þau horfðu svo á bíó í skólanum og komu sér svo fyrir og lásu fram á nótt, í svefnpoka með vasaljós. Kl. 7 á föstudagsmorgun komu svo kennararnir og vöktu liðið sem borðaði morgunmat og fór svo heim. Þau höfðu frí á föstudeginum. Að sjálfsögðu voru börnin ekki ein í skólanum, heldur voru foreldrar á vakt. Ég var m.a. sjálfboðaliði á kvöldvakt milli 8 og 12. Það fannst Sigrúnu Erlu gott.
Við erum komin með tvö gæludýr. Reyndar á Sigrún Erla þá. Þeir heita: Blúbb-blúbb og Súbb-súbb og búa í vatnsskál.