fimmtudagur, október 28, 2004

Bankarán

Íris Adda framdi sitt fyrsta og vonandi eina bankarán í dag.
Ég mundi allt í einu í morgun að ég hafði ekki ferðatryggingu, svo ég fór í bankann að redda því. Á meðan ég var að tala við ráðgjafann í þessu litla útibúi átti Íris Adda að vera að leika með kubbana, en þegar ég kom út frá ráðgjafanum, stóð hún í kaffistofudyrunum með hálfétna mandarínu.
Ég verð sótt eftir hálftíma, er orðin svolítið spennt:)

sunnudagur, október 24, 2004

Trambólínið tekið inn

Við ákváðum að taka trambólínið niður fyrir veturinn. Flestir gera það, þó fyrri eigandi að þessu trambólíni hafi ekki gert það, enda vantar tvo gorma og bólstrunin er illa farin.
Við setjum það aftur upp næsta vor og kaupum þá kannski varahluti og öryggisnet. Ég er alltaf hálf taugaveikluð þegar krakkarnir eru að hoppa á þessu.

Ruslalífið er einfaldara á Íslandi

Við höfum ekki þann lúxus hér í Noregi að öskukarlarnir nái sjálfir í öskutunnuna til að tæma hana, heldur þurfum við að muna að fara sjálf með hana út á götu kvöldið áður. Annars verður hún bara ekki tæmd. Og... við höfum ekki bara eina tunnu, heldur fjórar, allar mismunandi á litinn og innihalda mismunandi rusl. Brún fyrir matarafganga og garðaúrgang, blá fyrir pappír, rauð fyrir batterí og spilliefni og loks grá fyrir annað rusl. Við erum með sérstakt dagatal sem sýnir hvaða tunnur eiga að fara út á götu hvaða dag. Verið nú kurteis og góð við öskukarlana á Íslandi, þeir eru ekkert smá almennilegir við ykkur!

laugardagur, október 23, 2004

Jæja, þá er ég komin með visum til Kína! Við förum á fimmtudaginn og komum vonandi heim á mánudag. Þið sem heima sitjið, skemmtið ykkur vel á "Halloween".
Alla síðustu viku var bókavika í skólanum hjá Sigrúnu Erlu. Þau lærðu um ýmsa rithöfunda, skrifuðu sína eigin bók og svoleiðis. Það var engin venjuleg heimavinna, heldur völdu allir sér bók við hæfi sem þeir áttu að klára á 5 dögum. Á fimmtudaginn skrifuðu þau svo ritgerð um bókina sem þau völdu og um kvöldið var lestrarvaka í skólanum. Þau komu heim úr skólanum á venjulegum tíma á fimmtudag, en kl. 8 um kvöldið mættu 5.-7. bekkur aftur í skólann með svefnpoka, nesti, bók og vasaljós. Þau horfðu svo á bíó í skólanum og komu sér svo fyrir og lásu fram á nótt, í svefnpoka með vasaljós. Kl. 7 á föstudagsmorgun komu svo kennararnir og vöktu liðið sem borðaði morgunmat og fór svo heim. Þau höfðu frí á föstudeginum. Að sjálfsögðu voru börnin ekki ein í skólanum, heldur voru foreldrar á vakt. Ég var m.a. sjálfboðaliði á kvöldvakt milli 8 og 12. Það fannst Sigrúnu Erlu gott.
Við erum komin með tvö gæludýr. Reyndar á Sigrún Erla þá. Þeir heita: Blúbb-blúbb og Súbb-súbb og búa í vatnsskál.

laugardagur, október 16, 2004

Beðið eftir passanum

Ég er búin að senda passann minn í kínverska sendiráðið í Oslo og bíð eftir að fá hann aftur með "visum". Ég vona að ég lendi ekki í vandræðum þó ég hafi einhvern tímann skráð mig í sjálfstæðisflokkinn til að geta kosið Gulla á lista. Það var bara gert til að gera SiggaTomma greiða. Ég krossa bara putta og vona að ég fái að sjá múrinn og forboðnu borgina fyrir því.

sunnudagur, október 10, 2004

Iss, piss og pelamál, púðursykur og króna...

Fyrst þegar við fluttum inn í Ulveveien vorum við með sítengingu við internetið. Fyrrverandi eigendur höfðu haft það og gleymt að segja upp með 6 vikna fyrirvara svo við ákváðum bara að taka við af þeim, hafa nafnaskipti á greiðanda. En svo kom í ljós að við höfum ekki haft neinar tekjur í Noregi síðustu 4 ár...dhaaa... svo við erum víst ekki borgunarhæf. Við misstum því sítenginguna og þurftum að græja til svo við gætum hringt á netið og höfum því ekki verið svo dugleg að skrifa í dagbókina undanfarið. En nú erum við komin með heimasíma og fáum sítengt internet eftir 4 daga frá Telenor ("Landssímanum"). Þeir vilja ekki fá ljósrit af launaseðlum og skattskýrslu frá nýjum viðskiptavinum.
Atli vaknar stundum á nóttinni til að fara á klósettið. Ég kippti mér því ekkert upp við það þó ég heyrði í honum fara niður eina nóttina og svo upp í rúm aftur. En... þegar Sveinn ætlaði að fara í vinnuskóna sína um morguninn...já, ef að þér er mikið mál þá...(forstofuhurðin er við hliðina á baðherbergishurðinni).
Randi vinkona spurði mig um daginn hvort ég væri til í að koma með henni í helgarferð í lok október. Hún vinnur sko hjá SAS og má taka með sér gest. Ég sagði "já, takk!" og við erum að fara til...KÍNA!