miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Krabbar á Sokn

Við vorum að koma heim úr krabbaveislu í tjaldvagninum hjá Karin.
Karin sem vinnur með mér bauð okkur að koma í tjaldvagninn sinn sem hún hefur á Sokn að borða krabba eftir vinnu í dag. Sveini og krökkunum var smalað inn í bíl og keyrt undir sjóinn og á tjaldstæðið þar sem þau hjónin Karin og Ole Geir eru með tjaldvagn/sumarbústað. Þar sátum við úti og pilluðum kjötið úr klónum og átum með fransbrauði. Voða huggó. Föstudagsfílingur á miðvikudegi.

mánudagur, ágúst 18, 2008

Skólinn byrjaður

Í dag byrjuðu mamman og börnin í skólanum!
Mamman tekur eitt fag í háskólanum (bara hálfan mánudag og svo beint í vinnuna), Sigrún Erla byrjaði í 9. bekk, Atli í 4. bekk og Íris Adda í 1. bekk.
Íris er búin að vera í SFO í 2 vikur og fannst nú óþarfi að pabbi hennar væri að taka upp á því að fylgja henni allt í einu, en hann gerði það nú samt. Enda var ætlast til þess svona fyrsta formlega skóladaginn. Allt gekk vel. Enda er Íris búin að vera tilbúin að byrja í Sørbø-skóla í hálft ár eða svo. Ef þið skoðið myndirnar frá fyrsta skóladeginum sjáið þið að stólarnir hafa heldur betur breyst síðan , allavega ég, var í skóla. Í dag sitja börnin á stillanlegum alvöru skrifborðsstólum á hjólum!

Þægilegur munur að þurfa hvorki að keyra né sækja í leikskólann!

laugardagur, ágúst 09, 2008

Gufuskip og slökkviliðsbílar

Stavanger var fullur af gömlum gufuskipum, slökkviliðsbílum og rútum í dag.
Við eyddum deginum þar. Slökkviliðsbílarnir sem voru hátt í 100 ára voru fyrir alla að skoða þar til kl. 14, þá keyrðu þeir allir í halarófu um bæinn. Ég heyrði bílstjórann á einum bílnum vera að tala um halarófukeyrsluna þegar við vorum að skoða bílana og spurði pent hvort við mættum ekki koma með. Öll fjölskyldan stóð því aftan á bíl nr. tvö í röðinni og veifaði til áhorfenda á götum Stavanger með sírenuvæli með jöfnu millibili.
Við fórum svo um borð í gufuskip og fengum að fara niður í vélarúm að skoða kolamokarana.
Eftir rölt um göngugöturnar settumst við Sveinn niður með cappuchino á meðan börnin léku sér á leikvellinum við olíusafnið. Sá leikvöllur er öðruvísi en aðrir að því leiti að leiktækin eru gerð úr hlutum sem notuð eru í olíuiðnaðinum. hoppukastali úr bobbingum, stór olíurör til að skríða í gegnum o.s.frv.

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Nú er síðasti dagurinn í sumarfríinu hjá okkur Sveini. Í fríinu fórum við í 5 daga ferð til Billund og vorum í Legolandi í 2 daga. Við komum svo heim í 30°C hita og slöppuðum af í garðinum og á Vaulen þar sem krakkarnir gátu buslað í sjónum.
Plómurnar eru alveg að verða tilbúnar á trénu úti í garði svo ég er núna að reyna að nota upp afganginn af plómusultunni frá í fyrra. Við Sigrún Erla skelltum því tveimur hjónabandssælum í ofninn.
Á morgun fara Atli og Íris í SFO (SkoleFritidsOrdning), við Sveinn að vinna en Sigrún Erla verður eitthvað að slæpast. Skólinn byrjar svo 18. ágúst.