laugardagur, desember 25, 2004

Þegar við vöknuðum á aðfangadagsmorgunn var allt orðið hvítt og um miðjan daginn komu dúnmjúk jólasnjókorn. Sveinn fór út og mokaði stéttina og setti logandi ljós í tröppurnar, því við áttum von á gestum. Mamma, Bergþóra, Kristján og Stella komu tímanlega fyrir hátíðahöldin og kl. 18 sátu allir tilbúnir við jólaborðið. Við borðuðum hamborgarhrygg og hnetusteik og vorum svo södd að við ákváðum að opna nokkra pakka á meðan við gerðum pláss fyrir eftirréttinn, rískrem með möndlu. Kristján fékk möndluna. Hann gaf það í skin snemma í grautarhaldinu en enginn trúði honum. Hann fékk jólasveinaljósaseríu í möndlugjöf.
Svo opnuðum við restina af pökkunum og fengum ekkert smá margar og flottar gjafir! Takk fyrir okkur, allir sem eiga það!!

Nú erum við búin að vera að taka til og vaska upp eftir gærkvöldið og ætlum í göngutúr í kringum Stokkalandsvatnið. Það verður hressandi. Svo fáum við okkur kaffi og smákökur þegar við komum til baka. Gleðileg jól! (myndir í albúminu)

þriðjudagur, desember 21, 2004

Þungt og massívt tré

Það gekk ljómandi vel að saga jólatré og koma því heim (sjá myndir í albúminu), en þegar það átti að setja það í jólatrésfótinn okkar, gránaði gamanið. Fóturinn sem er úr járni gaf sig. Einn fóturinn (þeir eru þrír) beyglaðist saman undan þunganum. Við söguðum þá 2 greinahringi af trénu og ég var send að kaupa nýjan fót. Nú er tréð í heitu fótabaði til að bræða harpexið og opna æðarnar. Það verður spennandi að sjá hvort nýji fóturinn heldur, nú aðeins léttara tré.

Snjórinn er nánast farinn. Bara smá svell eftir:(


laugardagur, desember 18, 2004

Jólasnjór!

Kristján og Stella! Þið getið byrjað að hlakka til, það er kominn snjór! Nú detta þau rólega niður, snjókornin og allt er orðið hvítt:) Við erum að hlusta á íslensk jólalög á létt 95,6 og taka jólaskrautið upp úr kössunum, voða kósí.

Við fórum með bílinn á besta réttingaverkstæðið í Stavanger og þeir gerðu ekki bara svo vel við að það sést ekki að neitt hafi gerst, heldur voru þeir líka fljótir að því. Svo nú er ég aftur komin á litlu Toyotu Carinu. Mér var bent á það um daginn að ég hef gleymt að útskýra beygluna. Sko, það var ekki ég...Sveinn fór að sækja Sigrúnu Erlu til Viktoríu og á þessum tveimur mínútum sem hann fór inn að segja hæ og sækja barnið, bakkaði leigjandinn í kjallaranum hjá Kristni og Helgu, beint á bílinn og beyglaði frambrettið og hurðina svo það var varla hægt að opna hana. Þannig var nú það. Bara honum að kenna og við fengum viðgerð og bílaleigubíl á meðan.

Ég verð að segja ykkur frá svolítlu sérstöku við norðmenn: Þegar þeir eru að vísa til vegar, t.d. að segja hvar þeir eiga heima, geta þeir aldrei sagt bara götuheiti og húsnúmer eins og við erum vön. Heldur lýsa þeir alltaf leiðinni: "Veistu hvar þessi búð er, eða gamla kirkjan...beyjir upp til hægri þar til þú kemur að...þar er hvítt hús með bláu þaki og það er bjallan til vinstri".
Atli hefur fengið að fara heim með nokkrum af leikskólanum og það gera þetta allir foreldrar, að lýsa leiðinni. Doltið spes og svolítið fyndið:)

Á morgun förum við út í skóg að höggva okkar eigið eðalgreni. Það er ein sem vinnur með mér sem bauð okkur að koma upp í sumarbústað til kærastans, en þar er víst nóg af fallegum trjám. Hún kemur með graut og kaffi og við komum með drykki fyrir börnin og góða skapið.
Við hittumst í bústaðnum kl. 13 á morgun.
Í þetta sinn var gott að hún sagði ekki bara nafnið á bústaðnum, heldur LÝSTI LEIÐINNI:)

þriðjudagur, desember 14, 2004

Nýr bíll fyrir jólin

Ég fór í morgun með bílinn á réttingaverkstæði og fékk bílaleigubíl í staðinn. Hann heitir Opel Safir og ég er ekkert viss um að ég skipti aftur. Það er svo gott að keyra hann og ég sit svo hátt og hann er svo nýr og hreinn og Íris sér út um gluggann:) Ég vona bara að þeir verði lengi að gera við beygluna á hinum.
Það er mánuður síðan ég kláraði að kaupa og pakka inn jólagjöfum, en síðan þá hef ég lítið sem ekkert gert fyrir jólin. Ég bakaði reynadar tvöfalda smákökuuppskrift og át hana líka en aðventukransinn er ég til dæmis ekki enn búin að taka upp. Nú ætlum við að taka okkur tak og skreyta piparkökurnar (já, ég bakaði þær reyndar síðustu helgi) og taka upp jólaskrautið.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Svona er nú það

Það var hringt í mig úr hinni vinnunni og ég beðin að koma í viðtal. Vá hvað ég ringlaðist!... Ég var efins í símann, hringdi aftur í hann, en að lokum tilkynnti ég inn á símsvarann að ég kæmi ekki í viðtalið. Ég held það sé betra svona...að byrja hægt að vinna, frekar en að demba mér í 100% starf með bara hálft leikskólapláss fyrir Atla og hvað með Írisi? Bíð frekar eftir að Atli byrji í skóla og Íris í leikskóla áður en ég fer í fullt starf. Já, já...svona er nú það.

Annars fór Íris Adda með ömmu sinni í Kvadrat(stóra verslunarmiðstöð) í dag og stakk hana af. Það var auglýst eftir henni í hátalarakerfinu áður en hún fannst, skammt frá þar sem hún hafði týnst, illa lyktandi. Hún hafði falið sig á meðan hún gerði í bleyjuna.

Atli neitar að mæta í alvöru fimleikana á mánudögum.
Þjálfarinn er stór og feit og ákveðin kona, sem mér finnst virkilega dugleg að halda stjórn og aga á öllum strákunum. En Atli vill ekki mæta lengur. Segist fá hausverk þegar "risaeðlan" byrjar að garga. Hann mætir þó ennþá í leikfimina úti í skóla. Þar líður honum betur því Malene úr leikskólanum og Håvar, nágranni, eru þar líka (og ekki eins strangur agi).