mánudagur, mars 22, 2004

Góður dagur

Atli var harðákveðinn í því í gær að kaupa sér Spidermanbyssu fyrir afmælispeningana sína. Hann mætti út í Kringlu um leið og hún opnaði í dag og keypti byssuna og er búinn að leika sér með hana í allan dag. Skaut pílum inni, fór út og skaut froðu og fór svo í bað í kvöld og skaut úr vatnsbyssunni. Í baðinu sagði hann að þetta væri sko flott dót, "maður getur leikið sér með það allan daginn" og að þetta væri búinn að vera góður dagur!
Sigrún Erla sá "Björn bróðir" í bíó með Helgu vinkonu sinni en grey Íris fór ekkert út.
Ég er ekki enn byrjuð á skattframtalinu.

laugardagur, mars 20, 2004

Allt að verða klárt

Við höldum áfram að pakka smátt og smátt og nú er flestallt komið í kassa. Við fórum í vikunni á Hagstofuna til að skrá okkur úr landinu og allt er að verða klárt. Atli er loksins farinn í afmæli til Tómasar! Hann er búinn að bíða síðan hann vaknaði í morgun. Hann fór með pabba sínum í Dótabúðina og valdi handa Tómasi það sem hann langaði sjálfan mest í...Spiderman úlnliðabyssu sem skítur vatni, sogskálapílum og "teygjufroðu". Svo aðstoðaði ég Atla við að pakka þessu inn og hann skrifaði og teiknaði sjálfur á kortið. Það var stoltur ungur maður sem fór í afmæli klukkan 3, fullur tilhlökkunar.
Sigrún Erla ver öllum tómstundum sínum með Helgu vinkonu sinni. Þær fóru út að hjóla í morgun. Fóru svo saman í göngutúr eftir hádegi og á hundasýningu.
Ég er að mana mig upp í að skila skattskýrslunni. Ég nenni því ekki. Það er margt skemmtilegra hægt að gera á svona fallegum degi.
Amma kemur og borðar með okkur í kvöld.

sunnudagur, mars 14, 2004

Síðasti matarklúbburinn

Frá því við fluttum til Íslands fyrir fjórum árum höfum við verið með Önnu, Frigga, Hafdísi og Árna í matarklúbb. Við hittumst annan hvern mánuð og borðum saman góðan mat. Í gærkvöldi vorum við í Njarðvík hjá Hafdísi og Árna og steiktum okkur sjálf mat á rafmagnspönnu á miðju matarborðinu. Það var bæði skemmtilegt og bragðgott. Í eftirrétt var indisleg ísostaterta. Namm, namm!!

fimmtudagur, mars 11, 2004

Kristján og Stella í heimsókn

Kristján og Stella komu til okkar á Háaleitisbraut í kvöld til að kenna okkur á dagbókina og myndaalbúmið okkar. Nú er okkur ekkert að vanbúnaði að byrja að skrifa!

þriðjudagur, mars 09, 2004

Ný heimasíða og dagbók

Þetta er smá tilraun til að búa til heimasíðu fyrir Bellu og Svenna og börnin þeirra, Sigrúnu Erlu, Atla og Írisi Öddu. Þau ætla að flytja til Noregs um páskana og langar að gefa ættingjum og vinum tækifæri til að fylgjast með hvernig gengur á þessari síðu.

Hér koma að gamni nokkrar myndir.

Íris Adda Atli Sigrún Erla

Fleiri myndir eru í myndaalbúminu.