mánudagur, maí 31, 2004

Sola baðströnd

Slöppuðum af heima fram eftir degi. Krakkarnir voru svo góðir úti að leika við Rebekku (8),Helene (3)og Idu (3). Hoppuðu í París og léku með dúkkur og bíla. Þeim var svo öllum boðið í spaghetti og pulsur úti á verönd hjá Helene og Idu. Þegar Íris var farin að klípa Idu ákváðum við að það væri tími fyrir hana að leggja sig. Eftir blundinn kíktum við smá stund á baðströndina á Sola. Það er alvöru sandströnd með fíngerðum hvítum sandi sem fylgir með manni í bílinn og heim. Krakkarnir fóru beint í sturtu þegar heim var komið á meðan mamman (ég) eldaði mat.

sunnudagur, maí 30, 2004

Vaulen

Yndislegt veður!
Fórum á Vaulen sem er einskonar baðströnd með grófum sandi og steinum niðri við sjóinn og grasi til að liggja á lengra uppi á bakkanum. Þar eru leiktæki úti í sjónum og krakkarnir undu sér vel en við Sveinn lágum á teppi og drukkum kaffi. Þegar við vorum komin með nóg af sólbaðinu fórum við í heimsókn til ömmunnar. Þar horfðu krakkarnir á bíó á 4 metra breiðu tjaldi á meðan við Sveinn drukkum meira kaffi.

laugardagur, maí 29, 2004

Alsvik

Á þriðjudaginn var skemmtileg bekkjarferð hjá Sigrúnu Erlu og fjölskyldum bekkjarfélaganna. Við fórum í Alsvik og grilluðum og spjölluðum og fórum í leiki. Alsvik er náttúruparadís. Þar er skógur og lundur með grillaðstöðu og svo vatn með svönum sem hægt er að synda í á góðum dögum. Um kvöldið fóru fjölskyldurnar heim en bekkurinn varð eftir og gisti í "hálfskýli" á útilegudýnum og í svefnpoka. Þau komu svo í rútu heim á hádegi daginn eftir. Þetta "hálfskýli" er kringlóttur gisinn kofi, þaklaus í miðjunni. Í miðju kofans, undir berum himni, er eldstæði þar sem hægt er að kveikja bál. Fólk sefur meðfram veggjunum, undir þaki og getur sett niður tjald á milli sín og eldsins (sjá mynd í myndaalbúmi).
Í dag var frábært veður (sól og 16°c) og þá fórum við fjölskyldan, ásamt mömmu og Bergþóru aftur í Alsvík og sátum við vatnið. Við höfðum með okkur nesti og gáfum svaninum með okkur af brauðinu.

sunnudagur, maí 23, 2004

Dyreparken

"Hyttan" í Kristjansand var nú minni en við áttum von á, en við komumst öll fyrir svo þetta var allt í lagi. Við fórum niður á strönd og þar var alveg ofboðslega fallegt. Þetta er örugglega hreinasta paradís á sumrin í góðu veðri. Föstudeginum eyddum við í Dyreparken. Þar sáum við giraffa, apa, hirti og mörg önnur dýr, en Íris Adda hafði mestan áhuga á fuglunum sem flugu frjálsir um loftin. Í einum enda garðsins var húsdýragarður þar sem börn máttu fara inn og atast í dýrunum og halda á þeim. Sigrún og Atli hlupu á eftir grey kiðlingunum að reyna að ná þeim en Írisi fannst fátt til koma, þar til allt í einu lifnaði yfir henni: "bí, bí!" og hún benti. Þá hafði hún séð hænu.
En það eru ekki bara dýr í Dyreparken. Þar eru líka sjóræningjar og Kardemommubær og einhver tívolítæki.
Við keyrðum svo heim á laugardaginn með viðkomu í Birkedal, þar sem við fengum okkur hressingu og krakkarnir steyptu sín eigin kerti í kertaverksmiðjunni. Við enduðum svo daginn á því að grilla þegar við komum heim.
Í dag fórum við í göngutúr í Sandvedparken og skoðuðum byggingalóðina "okkar". Sveinn er svo að grilla aftur.
ATH! NÝJAR MYNDIR Í APR.-MAI ALBÚMINU BLS.3 OG 4

miðvikudagur, maí 19, 2004

Hæ, hæ og hó!

Hva, þetta var ekkert mál! Hvar viltu vera og hvað lengi? Nóg af lausum bústöðum. Við förum til Hamresanden við Kristiansand á morgun og gistum tvær nætur í "hytte". Þar er strönd og minigolf og stutt í Dyreparken þar sem dýrin, Kaptein Sabeltann (hinn ógurlegi sjóræningi) og Kardemommubær bíða okkar. "Hæ, hæ og hó og flaska af romm!"

Atli kann að blása tyggjókúlu!

þriðjudagur, maí 18, 2004

Hangs

Við erum búin að ákveða að salta gamla húsið og bíða eftir því nýja í dalnum!
Í gær var 17. maí með tilheyrandi hátíðarhöldum. Krakkarnir fóru upp á skólalóð með ömmu sinni og skemmtu sér vel þar. Þau unnu karamellur í kastkeppni og amman vann kransaköku í lottói. Þau komu svo heim í nýbakaða súkkulaðiköku og eplaköku.
Í dag erum við bara búin að hangsa. Rigning úti og Sveinn fór á bílnum í vinnuna. Á morgun er svo aftur "föstudagur". Það er nefnilega himnasprettur (Kristi himmelfartsdag) á fimmtudaginn og frí í vinnu og skóla á föstudaginn. Þetta er fjögurra daga helgi! Við erum orðin svolítið sein að panta sumarbústað, en gerum örugglega eitthvað skemmtilegt. Bergþóra fer í sumarbústað með vinum sínum og mamma fer til Danmerkur.

föstudagur, maí 14, 2004

10 ára afmæli

Þetta var dagurinn hennar Sigrúnar Erlu! Hún vaknaði spennt í morgun og tók upp 3 pakka! Það var Bratz í þeim öllum. Hún fór ánægð í skólann og kom ljómandi heim. Strákar í bekknum höfðu gefið henni Pokemon-kort. Þau eru ennþá lifandi í bekknum hennar (sko kortin...ennþá vinsæl). Svo var veisla klukkan tvö. Amman kom og Helga frænka með Viktoríu og Atla Þór og svo auðvitað María í græna húsinu. Stelpurnar hurfu í Bratz inn í herbergi og Atlarnir undu sér vel saman svo þetta var bara vel heppnað. Klukkan sjö fór Sigrún Erla svo í afmælispartý til bekkjarbróður síns. Það á að vera til kl. 22:15 eða þar til Idol-keppnin er búin. Hún er þar núna!
Til hamingju með daginn Sigrún Erla!

Atli kann að hjóla með engum hjálparadekkjum!

mánudagur, maí 10, 2004

Úff ...þetta er erfitt!

Fórum að skoða draumahúsið að innan.
Eldhúsinu þarf að henda út og kaupa nýtt, á efri hæð eru bara 3 svefnherbergi + eitt fokhelt sem hafði verið hugsað sem bað. Það kostar nú sitt að búa til baðherbergi. Þá vantar 4. herbergið. Væri hægt að taka bílskúrinn sem íbúð og laga þar herbergi. Eigandinn er búinn að fá leyfi fyrir öðrum bílskúr hinum megin við húsið...en...það þarf að taka allt húsið í gegn að innan. Svo eru þau búin að fá boð í húsið upp á 2 millur svo við þyrftum að toppa það og þá erum við komin í sama verð og fyrir nýtt tipp topp hús niðri í dal. Við verðum að fara að fá svar frá Block Watne. Hvað húsin í dalnum verða stór og hvað þau eiga að kosta. Ég ætla að hringja í þá einu sinni enn á morgun og gá hvort ég fæ einhver svör.
Gamla húsið er náttúrlega með stærri lóð og eflaust hægt að gera það fínt að innan með smá tíma og vinnu.
Hvað finnst þér?

sunnudagur, maí 09, 2004

Ótrúlega gott veður

Ég frétti að fólki finndist langt síðan við hefðum skrifað í dagbókina síðast! Það er gaman að heyra að fólk er duglegt að kíkja. Við reynum að vera iðnari við að skrifa.
Það er búið að vera svo gott veður hérna upp á síðkastið.
Á laugardaginn fyrir viku fórum við með morgunteið út á pall og drukkum þar. Veðrið var yndislegt. Seinnipartinn löbbuðum við svo niður í miðbæ og fórum í ferðativoli. Það er búið að vera gott veður alla vikuna. Rignir oft á nóttinni og svo er þurrt á daginn.
Í gær fórum við í göngutúr í Arboret. Það er einskonar risastór, villtur grasagarður. Alparósirnar voru að byrja að springa út. Við ætlum aftur eftir 2 vikur. Þá verður örugglega allt í blóma. Þá förum við á sunnudegi, því þá er kaffihúsið í garðinum opið, með kakó og vöfflur.
Við grilluðum á pallinum áðan og borðuðum kvöldmatinn úti. Eftir mat fórum við svo í göngutúr í kringum Stokkalandsvatn. Það er gamalt gróið hverfi þarna við vatnið í Ganddalnum með frábæru húsi, að utan, hvítt með rauðu þaki og gamaldags gluggum. Dúkkuhús og gróðurhús í garðinum og yfirbyggð verönd. Þetta er draumahúsið okkar og það kemur taxtmaður á morgun að meta það því það er TIL SÖLU! Við eigum náttúrlega eftir að skoða það að innan og höfum heyrt að það þarfnist andlitslyftingar að innan, en þetta er spennandi. Við erum mjög spennt fyrir þessu húsi. Ef það er ómögulegt að innan, höfum við alltaf nýja húsið í dalnum til vara.
Sveinn er búinn að vera ótrúlega duglegur að hjóla í vinnuna svo ég hafi bílinn á daginn. Hann er í hálftíma að hjóla hvora leið.
Nýjar myndir í albúminu!