Jólin eru búin í Noregi og ég er búin að vera að vinna soldið meira en 20%. Ég er búin að vinna hvern morgunn upp á síðkastið og oft fer ég aftur í vinnuna eftir að Sveinn er kominn heim. Það er svo mikið að gera í sambandi við launamiðana sem eiga að vera tilbúnir þann 20. jan. Hjá mínu fyrirtæki eru 77 starfsmenn. Sumir útlendingar og mismunandi reglur sem gilda. 7 mismunandi tryggingar sem þurfa að færast á mismunandi marga starfsmenn, ferðareikningar, km., diett og frír sími. Þetta þarf allt að færast inn í launakerfið á rétta kóda og afstemmast. Og það er EKKI LÉTT. Ég hugsaði svo mikið hérna um daginn að ég varð heit í höfðinu og fékk hausverk. Svo sofnaði ég með Írisi kl. 20 og svaf fram á næsta morgun.
Íris er hjá dagmömmu á meðan ég er að vinna og það er farið að ganga ágætlega. Hún er hætt að gráta þegar ég fer. Vinkar mér bara bless.
Fellibylurinn Inga reið yfir Sandnes í gær og feykti þakplötum af stórmarkaðinum svo þær skemmdu 15 bíla. Lögreglan stöðvaði alla umferð í kringum stórmarkaðinn og rýmdi húsnæðið og bílastæðið. Sem betur fer slasaðist enginn.
Fleiri götum var lokað. Einni t.d. af því að tré lá yfir götuna.
Maður nokkur að nafni Eirik Stolbæk fékk upphringingu í dag frá Hagstofunni um að umsókn hans um nafnabreytingu hefði verið samþykkt. Nú heitir hann Eirik Peirik Pling Stolbæk. Þetta kom honum svolítið á óvart þar sem hann hafði ekki sótt um neina nafnabreytingu. Hins vegar grunaði hann vinnufélaga um græsku. Eirik er farinn að venjast nýja nafninu og allri athyglinni sem hann fær út á það. Hann er að íhuga að halda því og vonast jafnvel til að geta sagt upp daglaunavinnunni og gerst frægur:) Hagstofunni aftur á móti finnst þetta ekki fyndið, heldur alvarlegt mál að hver sem er geti sótt svona um nafnabreytingu fyrir aðra. Það er mjög mikilvægt, segja þeir, að þjóðskráin sé nákvæm og rétt.