þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sveinn á afmæli!

Nú eru rússar úti um allt! Rússar eru menntaskólakrakkar sem eru að "dimmitera" . Þeir þekkjast á rauðu smekkbuxunum og eru öll með nafnspjöld í bunkum. Það er aðalsportið hjá börnunum mínum þessa dagana að safna nafnspjöldum frá þessum rússum.
Sigrún Erla, Atli og Róbert vinur Atla, hjóluðu öll upp í menntaskóla í dag til að sitja fyrir rússunum. Þau voru öll komin langt áleiðis þegar ég fer að skygnast um eftir Írisi Öddu. Þá heyri ég kallað úti á götu: "Aggi!, Aggi!" (þýð. Atli) Þar var Íris á sokkunum lögð af stað út götuna á þríhjólinu. Æ, það var svo krúttlegt. Hún minnti mig á Lottu litlu systur Míu Maju og Jónasar (Astrid Lindgren). Allt of lítil, en vill gera eins og hinir.

Sveinn á afmæli í dag og fékk rifsberjarunna og ávísun á helgarpössun frá tengdó og Bergþóru og hengirúm frá okkur hinum. Það var prufukeyrt í dag og myndirnar eru í albúminu :)
Til hamingju með daginn, Sveinn!

mánudagur, apríl 25, 2005

Sveinn keypti sér háþrístidælu á föstudaginn og er búinn að sápuþvo allt húsið að utan. Það var svolítill mosi á þakinu og sót á veggjunum, en nú er það eins og nýmálað!
Í gær gengum við með mömmu og Bergþóru í krinkum Mosvatnið í Stavanger. Það tók 70 mínútur og á eftir fórum við heim til ömmunnar og fengum ís og súkkulaðiköku.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Vorverk

Rokið er löngu fokið fram hjá og hér er bara búið að vera yndislegt vor/sumar veður!
Við erum búin að planta útihúsgögnunum á sólpallinn og sá grasfræum á auða blettinn bak við græna skúrinn. Sveinn bar áburð á grasið og ég plantaði sumarblómum í krukkurnar fyrir framan hús.
Við Sigrún Erla fórum í foreldraviðtal í dag í skólanum og kennarinn hafði gott eitt um hana að segja. Það eina sem hún má bæta sig í er að tala meira og taka meiri þátt í umræðum í tímum. Þetta er eins og spegill inn í fortíðina fyrir mig.

föstudagur, apríl 08, 2005

Gott að borða í rokinu

Það er ennþá rok hjá okkur.
Ég fylgist alltaf með "innlit-útlit" og "fólki" á skjá1. Í síðasta þætti komu ofætur í heimsókn til Sirrýar og voru með svo girnilegan sykur- og kolvetnisnauðan mat. Ég tók mér þau til fyrirmyndar og eldaði voða góðan kvöldmat sem öllum fannst góður:
Steiktar kjúklingabringur með karrý og kókos
steikta rófu- og gulrótarstrimla
smjörsteikta sveppi (fita er holl í hófi)
og grískt salat með feta-osti
og að sjálfsögðu vatn með.
Við erum öll í hollustunni... alveg þangað til við borðum súkkulaðimuffinsið sem Sigrún Erla er að baka!

Smá innsýn í tungumál Írisar Öddu:
Éla vala bega gobbana = ég er að bera krem á fæturna
É mala hute = ég málaði þetta hjá Vigdísi
Mamma, é hagga? = mamma, má ég fá að drekka?
Sumt segir hún eins og við, eins og t.d. þegar hún horfir á mann með uppglenntum prakkara-spurnaraugum og segir: ,,Á ég?"

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Flugmiðar og kúla

Þá er ég búin að kaupa flugmiða fyrir fjölskylduna til Íslands í sumar. Við komum 25. júlí og náum 11 heilum dögum.
Veðrið er búið að vera svo gott hjá okkur síðustu daga og krakkarnir úti á peysunni að hoppa á trampólíninu, eins og sjá má í myndaalbúminu. En í dag kom alveg ferleg lægð yfir okkur með roki og rigningu.
Atli gekk á staur í gær og fékk svaka kúlu á ennið og blóðnasir. Kúlan hafði hjaðnað heilmikið, strax í morgun, sem betur fer segi ég, því miður segir Atli, sem ætlaði að sýna hana í leikskólanum. Fóstrunum fannst hún nú samt alveg nógu stór.