miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Íris Adda á afmæli!

Leikskólinn hennar Írisar Öddu mælir með að börn komi með eitthvað sykurminna en köku á afmælisdaginn. Íris tók því með sér bangsabollur, poppkorn og ostapinna í dag. Það sló í gegn!
Hún fékk kórónu í leikskólanum og þegar hún kom heim fékk hún Frílinn hans Bangsímons á DVD, nýtt barn sem ropar og hlær, Mjallhvítarbarbídúkku og...þar sem við fórum ekki í tívolí á afmælisdaginn þetta árið...fékk hún "Litle people" tívolí!

Atli tók þátt í teiknisamkeppni í bókabúðinni fyrir skemmstu og í dag var hringt... hann hafði unnið skrifpúlt! Borð og bekkur fast saman og hægt að lyfta lokinu á borðinu (eins og skólaborðin í gamla daga).

Til hamingju með daginn Íris! og Atli... haltu áfram að teikna!

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Guðmann og hellirinn

Við fengum skemmtilega heimsókn í gær! Guðmann Bragi frændi minn var í vinnuferð í Stavanger á föstudaginn og eyddi laugardeginum með okkur áður en hann fór aftur heim.

Í dag fórum við í göngutúr í Uburdhelleren í Oltedal í rigningunni. Það var auðvitað skemmtilegt og hressandi og á heimleiðinni komum við við í Gjesdal fabrikkutsalg og borðuðum "middag" þar.
(Myndir í albúminu)

mánudagur, ágúst 22, 2005

Fyrsti skóladagurinn

Íris var svo dugleg í leikskólanum í dag. Vinkaði mér bless og var brosandi þegar ég kom að sækja hana. Skólinn byrjaði líka í dag hjá Sigrúnu Erlu og það var fyrsti skóladagurinn hans Atla. Ég fór með honum og það gekk ljómandi vel.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Skólar og aðlögun

Við erum mest búin að vera heima og slappa af í garðinum um helgina. Veðrið er gott (20°c).
Ég er þó búin að vera að vinna á morgnana því ég gat svo lítið unnið í vikunni því ég er búin að vera með Öddu í aðlögun á leikskólanum. Það hefur gengið vel og á morgun prófar hún að vera ein.
Atli og Sigrún byrja svo líka í skólanum á morgun.
Við Sveinn horfðum á svolítið skemmtilega og spennandi mynd í gær á DVD. "Five days to midnight". Þetta eru eiginlega 5 þættir á 2 diskum. Í allt 3 og hálfur tími. Ekkert langdregið, bara spennandi.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

1. dagurinn í Imi

Íris fór í leikskólann í dag og ég var með henni allan tímann. Fyrst sleppti hún ekki hendinni á mér og faldi sig á bak við mig ef einhver talaði við hana. En smám saman losnaði takið og hún fór að elta hina krakkana og gera eins og þeir. Hún ætlar aftur á morgun!

Ég sat á IKEA veitingastaðnum áðan og át kjötbollur þegar allt í einu er sagt "Bella" með íslenskum hreim. Það var svolítið óvenjulegt. Það var íslensk kona sem býr í Stavanger (hef hitt hana einu sinni áður) voða næs, ætlar að hringja í mig næst þegar hún heldur saumaklúbb (bannað að koma með saumadót). Það verður pottþétt gaman!

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Sveinn var að vinna í Haugesund föstudag og laugardag og gisti þar. Við börnin kósuðum okkur heima á meðan. Á föstudaginn var síðasti dagurinn hans Atla í leikskólanum og hann vildi endilega hafa veislu til að halda upp á það. Við hituðum því pizzur, bökuðum vöfflur og höfðum allskyns kex og nammi og auðvitað var keyptur pakki með 50 blöðrum. Ömmu var svo boðið í veisluna sem stóð fram á kvöld. Um kvöldið fór Íris Adda að sofa á sínum venjulega tíma, en stóru börnin fengu að vaka með mömmu sinni og horfa á bíómynd langt fram á kvöld með snakki og kóki.
Á laugardaginn fórum við svo til ömmu og Bergþóru og borðuðum grillaðan lax og banana á pallinum hjá henni.
Í dag höfum við verið heima. Sigrún að leika við Vibekke (loksins fann hún vinkonu) og Atli með Simon og Jostein. Við settum vatn í sunlaugina sem Bergþóra gaf krökkunum í gær og Atli og Íris eru búin að synda í henni. Voða huggulegur sunnudagur. Gott veður, börnin að leika sér og við Sveinn að drekka kaffi og fylgjast með. Á eftir er búið að lofa Sigrúnu Erlu að leigja spólu.
Íris byrjar svo í aðlögun á leikskólanum á þriðjudaginn!

mánudagur, ágúst 08, 2005

Skólataska og norskur bíll

Þá er sumarfríið búið hjá okkur flestum! Við erum búin að hafa það mjög gott. Fyrst komu Leifur, EllaDís og Kristján Orri í heimsókn og svo fórum við til Íslands, þar sem við heimsóttum fólk á hverjum degi.
Það var líka vel tekið á móti okkur þegar við komum heim. Mamma hafði keypt mat í ísskápinn og Leif nágranni okkar, sem Íris bakaði vöfflurnar hjá, bankaði upp á hjá okkur með póstinn. Hann hafði séð um að tæma póstkassann, slá blettinn, vökva sumarblómin og fara með tunnurnar út á götu á meðan við vorum í burtu (óumbeðinn). Hann fékk litla Brandy-flösku, kossa og knús að launum.
Atli keypti skólatösku áðan sem hann er svo ánægður með að hann ætlar að taka hana með í leikskólann á morgun. Hann vildi sko helst sofa með hana á bakinu, en fékk ekki leifi til þess. Skólinn byrjar 22. ágúst og þá byrjar Íris Adda líka í leikskólanum, hálfan daginn.
Í dag varð bíllinn okkar norskur. Það kostaði morðfjár og heilmikla bið og snúninga...ég veit ekki alveg til hvers. En svona eru víst lögin og ég held að tryggingarnar séu eitthvað ódýrari hér.