Mamma fékk krakkana lánaða í nótt svo við Sveinn kósuðum okkur í Stavanger í gærkvöldi. Við borðuðum á Skagen restaurant, bláskel, lambalund og skötusel. Eftirrétturinn var nammipoki í bíó, þar sem við sáum bleika pardusinn. Sú mynd er óttalegt bull, en samt hægt að hlæja! Eftir myndina fengum við okkur cappocino á kaffihúsi og nutum þess svo að sofa út í morgun. Samt ekki of lengi, því nú er kominn sumartími. Þegar við vöknuðum kl. 9:30 í morgun var klukkan eiginlega orðin 10:30. Svo nú erum við tveimur tímum á undan klukkunni á Íslandi.
Veðrið?...Hvorki heitt né kalt...bara 0°c .
Dagbók Bellu og Svenna
Dagbók og myndir frá Sandnes í Noregi
sunnudagur, mars 26, 2006
laugardagur, mars 18, 2006
Sirdal
Við fórum í ljómandi huggulegan bíltúr upp í Sirdal í dag. Stoppuðum þar og renndum okkur á snjóþotu og drukkum kakó. Við komum svo við í Byrkjedal á heimleiðinni og lituðum kerti og átum ís. Þetta með ísinn... Við vorum sko ennþá að skoða kerti þegar Íris hvarf. Atli fann hana í felum undir borði, hálfnaða með stolinn ís! Það var þá bara keyptur ís á línuna. Dagurinn var svo toppaður með því að kaupa nammipoka.
Atli sagði við kvöldverðarborðið að þetta hefði verið MJÖG skemmtilegur dagur, ...nema, hann ætlar aldrei aftur að keyra svona langt.
(mynd af Írisi undir borði í mars-albúminu)
sunnudagur, mars 12, 2006
Atli bauð strákunum í bekknum í afmælispartý á föstudagskvöldið var. Þeir sátu allir með popp og snakk og horfðu á Charlie og súkkulaðiverksmiðjuna. Að íslenskum sið var gert hlé á sýningu myndarinnar og boðið upp á köku og pizzu ásamt langþráðu gosi eftir allt poppið og snakkið. Svo var smá happdrætti. Við Atli höfðum keypt fullt af litlum súkkulaðistykkjum sem við pökkuðum í álpappír. Inni í einu þeirra var vinningsmiði. Alveg eins og í myndinni! Sá heppni fékk stórt páskasúkkulaði í verðlaun, þar sem við eigum enga súkkulaðiverksmiðju.
Í gær fórum við í göngutúr í hálkunni og fengum svo vöfflur hjá ömmu áður en við fórum að versla í matinn. Fyrst í Lidl að kaupa þýskt jógúrt og svo í Ultra að kaupa ýmislegt spennandi sem ekki fæst í venjulegu ódýru Kiwi-hverfisbúðinni okkar.
Í dag vorum við Sigrún Erla svo voða duglegar að grunna tilvonandi herbergið hennar!
Sveinn passaði litlu börnin og eldaði hamborgarhrygg á meðan.
fimmtudagur, mars 02, 2006
Fiskamatur og söl
Fyrir nokkru greip ég Írisi Öddu í að vera að borða fiskamat. Hún sleikti út um og sagði: ,,namm, söl!" Þá fékk Sveinn mömmu sína til að senda okkur svolítið af sölum frá Hrauni. Út af lyktinni, geymum við pokann úti í bílskúr og náum bara í smá í einu inn í hús. Í dag var greinilega kominn tími til að sækja meira út í skúr, því Íris var komin í felur inn í sturtuklefa með fiskamatinn!