laugardagur, apríl 28, 2007

Grillað í góða veðrinu

Við tökum því rólega í garðinum í dag. Sveinn sló reyndar blettinn og svo fengum við okkur göngutúr að ná í bílinn frá í gærkvöldi. Við komum við í búð og keyptum kjúklingabringur og marineringarlög og svo var farið að grilla. Þvílík stibba af kjötinu. Ekki svona eðlilega vond eggjalykt, heldur bara prumpuklóaklykt. Sveinn marineraði samt bringurnar og grillaði. Hann smakkaði svo horn af bringu eins og sönnum kokki sæmir en fannst marineringin ekki góð. Illa lyktandi kjöt í vondri marineringu er ekki til að bæta matarlistina, svo bringurnar fóru í tunnuna (úti) og við Sigrún brunuðum út í búð að kaupa sumarkótilettur (reyktar svínakótilettur) og pulsur. Þetta verður pottþétt betra!

föstudagur, apríl 27, 2007

007 og sjálfstætt fólk

Í fyrsta sinn síðan ég byrjaði að æfa Taekwon-do, ætla ég að skrópa á æfingu í kvöld. Við Sveinn erum nefnilega að fara í afmælisveislu þar sem James Bond verður þema. Sveinn fer að sjálfsögðu í svörtu jakkafötunum og í hvítri skyrtu og ég í silfur Bond-gellu topp við stuttu pæjubuxurnar mínar og háhæluðu skóna (ég fann engan rauðan sexy kjól sem mér leist á). Afmælisgjöfin verður shaken not stirred.

Ég fór í íslenskan saumaklúbb í gær. Það er bannað að koma með saumadót. Það var voða gaman eins og alltaf. Yngstu gestirnir í klúbbnum voru 6 og 8 vikna... ég fékk að halda á báðum. Veitingarnar frábærar eins og alltaf í þessum klúbbum og svo var ég send heim með "sjálfstætt fólk", 2 bindi og norska DVD-mynd. Þeim fannst ekki hægt að ég hefði ekki lesið bókina.

sunnudagur, apríl 22, 2007

Það hefur eitt og annað gerst síðan ég fór fýluferðina í Hanahallen.

Atli varð 8 ára og hélt upp á afmælið með að bjóða öllum strákunum í bekknum í veislu. Það var heilmikið fjör og ósköp passlegt að hafa veisluna í 2 tíma. Mamma og Bergþóra komu svo eftir að strákarnir voru farnir. Atla langaði rosalega mikið í playstation 2 í afmælisgjöf, en mig langaði frekar að gefa honum nýtt hjól fyrir sumarið. Gamla hjólið var of lítið fyrir hann og ekki bara hjólið, heldur líka slangan á afturdekkinu uppspóluð. Þegar ég fór að tala um nýtt hjól, langaði Atla líka í það og gat ekki gert upp við sig hvort hann langaði meira í. Við sættumst því á að hann fengi frekar hjól og myndi safna sér sjálfur fyrir Playstation 2. Hann átti smá pening sjálfur og fékk enn meir í afmælisgjöf.

Frúin fór í Taekwondo próf fyrir páska og er komin með gula rönd í beltið. Allir í "mínum bekk" náðu prófinu og prófdómarinn sagði að þetta væri besti nýbyrjendahópurinn sem hann hefur prófað frá Sandnes hingað til!

Á meðan frúin var í prófinu, sem tók hálfan daginn, voru stóru börnin á generalprufu í menningarhúsinu í Sandnes. Allur Sørbø skóli var með sýningu þar á mánudeginum. Fría sýningu fyrir alla 5.bekkinga í Sandnes um daginn og sölusýningu fyrir alla sem vildu um kvöldið. Við Sveinn og Íris keyptum að sjálfsögðu miða og fórum að sjá. Þetta var stórglæsileg sýning. Hvert einasta barn í skólanum var með í sýningunni. Sumir dönsuðu, sumir sungu og sumir fóru með texta. Sigrún Erla var ein af þeim sem fékk að fara með teksta og leika smá þátt og svo sungu Sigrún og Atli bæði með í kórunum. Lögin voru mörg frumsamin af tónlistarkennurunum við skólann og hljómsveitin var kennarar og nemendur við skólann. Þetta var alveg frábært.

Svo komu páskar með appelsínum og kvikklunsj. Við földum pappaegg fyllt með sælgæti í herbergjunum hjá krökkunum og slöppuðum af, átum nammi og borðuðum svínakjöt í 10 daga. Úff hvað ég belgdist út og varð þung á mér.

Helgina eftir páska kom pabbi í heimsókn. Það var mjög gott og gaman að hafa hann. Við vorum svo einstaklega heppin með veðrið þessa helgi. Sól og hlítt. Við vorum dugleg að fara í göngutúra en annars slöppuðum við bara af, sátum mikið úti og drukkum kaffi.

Pabbi hafði tekið með sér norskar krónur sem hann náði ekki að eyða, svo hann gaf krökkunum þær áður en hann fór. Atli fór beint að telja í buddunni sinni og svo var farið við fyrsta mögulega tækifæri og keypt Playstation 2 og einn leikur (eye toy). Krakkarnir eru búnir að vera í leiknum síðan.

Atli og Sigrún Erla héldu tombólu í gær til styrktar skólaheimilinu á Indlandi og söfnuðu nok 1480. Svo fór öll fjölskyldan í ekta íslenskt afmæli til Alexanders, 5 ára, með brauðtertu og alles!