miðvikudagur, júní 25, 2008

Lautarferð

Það er búið að rigna núna í ca. 2 vikur svo þegar loksins stytti upp í dag drifum við okkur í lautarferð. Grillaður kjúklingur, brauð, álegg, salat, brownie og djús í lautarferðabakpokann og tágakörfuna og keyrt út á Vaulen. Þar er tjaldstæði með grasi, bekkjum og leiktækjum við vog. Við höfum nokkrum sinnum farið þangað á heitum dögum til að synda í sjónum og liggja í sólbaði en í dag var ekki veður til þess. Þó það rigndi ekki, var skýjað og hálf kalt að sitja lengi. Þegar mávarnir voru orðnir of ágengir keyrðum við aftur heim.

fimmtudagur, júní 19, 2008

Hún lengi lifi...hipphipp...húrra!


Langafasystir mín, Þuríður Samúelsdóttir á 105 ára afmæli í dag og er elst núlifandi íslendinga! Til hamingju með daginn!
Ég kemst nú ekki til að kyssa afmælisbarnið en ætla út að borða í kvöld með vinnufélögum og get nú alveg skálað fyrir Þuríði í leiðinni.

miðvikudagur, júní 18, 2008

Við ætluðum í yoga í dag. Ég, mamma, Sigrún og Bergþóra.
Sigrún greyið fékk sirkusfólk í heimsókn í skólann í dag sem leifði krökkunum að prófa ýmis trix eins og að renna sér niður teppi. Sigrún var í hlírabol og brann undir höndunum þegar hún rann niður teppið. Hún fór því ekki í yoga heldur sat heima með olnbogana út í loftið og aloe vera undir höndunum.
Við hinar mættum á staðinn til að lesa miðann á hurðinni: ,,Ekki yoga í dag vegna veikinda".
Við vorum samt svo innstilltar á yoga, í fötunum og allt, að við fórum heim til mömmu sem leiðbeindi okkur í kínverskri leikfimi í staðinn. Það var ljómandi! Og ekki spilltu jarðarberin með sykri og rjóma fyrir.

þriðjudagur, júní 17, 2008

Til hamingju með daginn!

Undanfarinn mánuð hefur verið blíðskaparveður eins og sjá má á myndunum í albúminu! Það er frábært að hafa svona hlítt. Þurfa ekkert að hugsa um að klæða sig þegar maður fer út, bara að bera á sig sólarvörn. Svo fer maður inn til að hvíla sig á hitanum öðru hvoru. Blíðviðrið entist í ca. 3-4 vikur og Gísli og Nanna náðu í endann á því. Þau komu og heimsóttu okkur yfir helgi. Takk fyrir komuna! Það var gaman að hafa ykkur.
Ég fór í próf í norskum skattarétti 10. júní. Það var miklu fargi af mér létt þegar það var búið. Nú finnst mér ég vera komin í sumarfrí þó ég þurfi reyndar að mæta í vinnuna 4 daga í viku. Þegar maður er í skóla liggur alltaf heimanámið á manni allan sólarhringinn. Nú get ég gert (og hugsað um) það sem ég vil eftir vinnu.
Íslendingarnir hér í kring tóku forskot á sæluna og hittust í almenningsgarði og grilluðu og spjölluðu á sunnudaginn var til að halda upp á 17. júní. Við gerum svosem ekkert sérstakt í dag til að halda upp á daginn nema að sjálfsögðu flagga ég íslenska fánanum, Atli gengur um með íslenska skjaldamerkið á bolnum sínum og við tilkynnum fólki að í dag sé þjóðhátíðardagur Íslendinga.