fimmtudagur, júní 24, 2004

Kaupsamningur

Við skrifuðum undir kaupsamning í gær og fáum húsið afhent 30. ágúst. Það eru einhverjar myndir af húsinu í júní-möppunni ásamt mynd af Bratz-dúkkunum hennar Sigrúnar Erlu og peysunni sem hún prjónaði sjálf.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Húsakaup og prjónaskapur

Héldum upp á þjóðhátíðardaginn með því að kaupa hús!
Sigrún Erla kom mér á óvart með því að koma heim frá ömmu sinni í peysu sem hún hafði prjónað sjálf! Þær prjónuðu til skiptis; Sigrún Erla prjónaði eina umferð og amman til baka...Rosa flott!
Atli kann að flauta!

miðvikudagur, júní 16, 2004

Tilboð og tannbursti

Við gerðum tilboð í flotta húsið við Stokkalandsvatnið sem var ekki svo rosa fínt að innan. Það rennur út kl 10 í fyrramálið! Stutt í nýjan barnaskóla. Unglingaskólinn í hverfinu er góður, en soldið langt að fara. Stutt niður að vatni og stutt í dalinn og Sveinn bara 5-10 mín að hjóla í vinnuna. Spennandi að vita hvort við verðum húseigendur á morgun!?
Það var ekkert mál að fá krakkana til að bursta tennurnar áðan!
Atla tannbursti týndist í gær og hann var líka orðinn gamall svo Sveinn lofaði honum að hann fengi að velja sér nýjan tannbursta í búðinni í dag. Ég fór með honum í búðina og Atli valdi auðvitað rafmagnstannbusta! Ég varð þá auðvitað að kaupa eins fyrir Sigrúnu Erlu. Atli er búinn að bursta tennurnar 3svar í dag eftir hádegi.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Havanna Badeland

Fórum í Havanna Badeland í dag. Íris var skíthrædd og sleppti ekki takinu af mér til að byrja með en Sigrún og Atli voru sko ekki hrædd og fóru hverja bununa á fætur annarri í vatnsrennibrautunum. Keyptum svo bara hamborgara og franskar í búðinni og elduðum sjálf heima. Þeir eru bestir!

þriðjudagur, júní 08, 2004

"Mamma sjáðu!"

Í gær kom Atli inn með nokkur óþroskuð græn rifsber á grein. Ég sagði honum að vera ekki að tína berin svona græn heldur bíða eftir að þau þroskist og verði rauð. Hann fór aftur út með berin og hefur eflaust hent þeim á götuna. Hann kom svo askvaðandi inn áðan og var mikið niðrifyrir: "Mamma sjáðu! Berin eru búin að þroskast á götunni!" Sagði hann og hélt á nokkrum rauðum vínberjum á grein.

laugardagur, júní 05, 2004

Stavanger

Óskin hans Atla rættist í dag þegar við fórum loksins með lestinni til Stavanger! Í Bjergstedparken var sannkölluð 17. júní-stemmning. Þar var verið að halda upp á að Stavanger hefur verið valin menningarborg árið 2008. Við horfðum á Línu Langsokk á sviðinu, renndum nokkrar ferðir í rennibrautinni, hoppuðum í hoppukastala og keyrðum fjarstýrða bíla. Við gengum svo í gegnum gamlabæinn og niður á markaðstorg. Borðuðum pizzu á Peppe´s. Þræddum göngugöturnar, iðandi af mannlífi. Horfðum á Tatara leika listir sínar og fengum að prófa hjá þeim að ganga á rúllandi tunnu. Keyptum ís. Gengum fram hjá dómkirkjunni sem var byggð árið 1100, meðfram tjörninni með gosbrunninum og aftur niður á lestarstöð.
Viðburðarríkur og skemmtilegur dagur:)

þriðjudagur, júní 01, 2004

Sjóviskudagur og afmæli

Í dag tók bekkurinn hennar Sigrúnar Erlu þátt í "Sjövettdagene" í Sandnes. Þau mættu niðri á smábátahöfn í morgun í stað þess að fara í skólann og á höfninni lærðu þau hvernig ætti að bera sig að ef þau kæmu að fólki í neyð. Þau fóru svo um borð í skútu sem var við bryggju og fengu að skoða. Ég hafði sent Sigrúnu af stað í flíspeysu því ég hélt að þau færu í siglingu. Hún var því alveg að bráðna þegar hún kom heim, búin að ganga alla leið frá höfninni, í flíspeysu, upp í móti, með skólatösku á bakinu í 23 stiga hita.
Seinni partinn var svo pulsupartý úti í garði hjá Randi, því Elisabeth var 3 ára!