Ég sendi inn atvinnuumsókn í morgun. Bókhaldsstarf, ekki langt frá okkur. En eftir hádegi var hringt í mig frá Leif Kielsen og mér boðin 20 % vinna. Færa bókhald fyrir ört vaxandi, vel stætt fyrirtæki sem leigir út starfsmenn í Norðursjóinn (olíuborpallana). Fyrirtækið er í miðbæ Stavanger og ég mun vinna þar, en á launum frá Leif. Ég sagði já takk. Það passar mér vel að vinna 2 morgna í viku og svo fæ ég örugglega eitthvað meira að gera fyrir Leif sem ég get unnið heimanfrá.
Þá er bara að vona að ég fái ekki hina vinnuna:)
Það heldur áfram að snjóa hjá okkur og krakkarnir eru alsælir úti í garði. Það er lítil brekka í garðinum og þar renna þau sér öll á þotu. Atli bauð stelpu með sér heim af leikskólanum í gær og þau skemmtu sér svo vel að hún vildi endilega koma aftur í dag. Hún ætlaði svo ekki að vilja fara heim kl. 17 þegar pabbinn kom að sækja hana.
Sveinn heldur áfram að lakka hurðir. Það er ágætt að það er enginn í kjallaraíbúðinni, þá getur hann verið þar að lakka. Það verður heilmikill munur þegar nýju hurðirnar verða komnar upp!
Dagbók Bellu og Svenna
Dagbók og myndir frá Sandnes í Noregi
föstudagur, nóvember 19, 2004
fimmtudagur, nóvember 18, 2004
Vetur
Nú er kominn vetur!
Þeir sem ekki höfðu bílinn inni, þurftu að skafa í morgun. Það er hvít föl yfir öllu og kalt. Veturinn kom svolítið snögglega. Það var búið að vera haust með rigningu og 8-10°c. En nú er hitinn 0°c og allt hvítt og kalt.
Sveinn vinnur bara hálfan daginn þessa viku, út af bakinu, og þar sem hann byrjar kl. 5 á morgnana er hann búinn að vinna kl. 8:30, þegar ég er að fara með Atla í leikskólann.
Við eigum ekkert nýtt brauð og ég nennti ekki að bíða í 10 mín fyrir utan búðina eftir að hún opnaði svo ég fékk góða hugmynd (bling!)...ég er núna að baka heilhveitivöfflur sem við borðum heitar með smjöri, osti og jarðarberjasultu. Namm og drekkum te með. Við höfum það voða kósí inni með kuldann úti:)
Það er kannski óþarfi að nefna, en Íris Adda er að horfa á Stikkfrí...í ca 76. sinn:)
þriðjudagur, nóvember 16, 2004
Nágrannarnir
Við búum í mjög vinsamlegu hverfi. Ég er búin að heilsa formlega upp á nágrannana í 8 næstu húsum. Einn kom með poka af bjarnarberjum úr garðinum og annar sagði mér að bjarga mér sjálf með eins mörg epli og ég gat í mig látið úr garðinum hans. Við erum fimm konur úr hverfinu sem hittumst alltaf milli kl. 10 og 11:30 á leikvellinum með dætur okkar. Einn daginn var svo leiðinlegt veður að við fórum inn til einnar og drukkum kaffi meðan stelpurnar léku.
Leigjandinn í kjallaranum hjá Helgu frænku keyrði á bílinn okkar á laugardaginn þegar Sveinn var að skutla Viktoríu heim, svo nú er franhurðin beygluð og ekki hægt að opna hana nema rétt til að smokra sér inn. Nágrannakona sem býr svolítið frá, en samt þannig að hún sér okkar hús frá sínu, tók strax eftir beyglunni og hafði orð á henni á leikvellinum í morgun. Það fer ekkert fram hjá nágrönnunum.
Það er voða notalegt að hafa gott samband við nágrannana, en nú er ég fljót að kippa krökkunum inn ef þau haga sér ekki sem skildi fyrir utan...sem er í sjálfu sér ágætis aðhald fyrir mig sem uppalanda:)
fimmtudagur, nóvember 11, 2004
Það er 11. nóvember og ég er búin að pakka inn flestum jólagjöfunum. Ég hef aldrei verið svona snemma á ferðinni fyrr.
Við verðum með næturgest í nótt. Það er besti vinur hans Atla. Það er ekki nóg fyrir þá að vera saman hálfan daginn á leikskólanum heldur skiptast þeir á að fara með hvor öðrum heim á eftir. Og nú ætlar Róbert semsagt að fá að gista. Það er aldeilis spennandi. Ég sagði Atla að Róbert kæmi eftir miðdegismatinn (kl. 5), svo Atli spurði mig kl. 2 hvort ég gæti ekki byrjað að elda:)
Það er ekki langt síðan Íris Adda entist til að horfa á heila teiknimynd, enda ekki nema 2 ára. Hún byrjaði á Dodda (en liten fyr med morsom liten bil) og fór svo yfir í Bangsímon. Hann fékk að svífa svona 20 sinnum. En uppáhaldsmyndin hennar núna, sem hún vill helst horfa á oft á dag, er Stikkfrí, leikin barnamynd. Hún er alveg húkt á þessa mynd.
Sigrún Erla og Randí, vinkona hennar úr næsta húsi, eru á fullu í lagasmíð þessa dagana. Þær semja lög og texta og syngja inn í tölvuna. Svo brennum við afraksturinn á geisladisk. Þær syngja líka lög eftir aðra t.d. Britney Spears.
Sigrún og Randí æfa saman badminton og svo er Sigrún að læra að dansa (free-stile) einu sinni í viku. Hún fær svo stelpur í skólanum til að semja dansa með sér og sýna á skólasviðinu þegar það eru samverustundir í salnum.
þriðjudagur, nóvember 09, 2004
Kína
Jæja, þá kemur sagan...
Við Randí borguðum NKR 1500 fyrir flugmiðann fram og til baka til Kína fyrir að fá að sitja á 1. klassa og það var sko þess virði. Reyndar sat Randí inni í skáp hjá hinum flugfreyjunum á leiðinni til Kína, því það var bara eitt sæti laust á 1.klassa, en við ákváðum að ég mundi ekkert vorkenna henni, heldur bara njóta mín og það gerði ég. Ég sat í lasyboy með kodda og teppi og náði ekki í sætið fyrir framan nema með því að teyja tærnar. Svo var byrjað að þjóna mér. Fyrst var boðið upp á fordrykk svo var komið með gjöf. Snyrtibuddu með sokkum, augnhlífum og eyrnatöppum, ýmsum kremum og tannbursta og tannkremi. Fyrir matinn var komið með heitan þvottapoka og svo var gengið annan hring til að safna þeim saman aftur. Því næst var settur dúkur á borðið mitt. Máltíðin var fjórréttuð, forréttur, aðalréttur, ostar og eftirréttur og að sjálfsögðu vín og gos eins og ég gat í mig látið og hnífapörin voru úr stáli og glösin úr gleri.
Eftir matinn horfði ég á sjónvarp á mínum eigin skjá sem kom upp úr arminum á lasyboy, áður en ég lagði mig í ca. 4 tíma. Ég vaknaði svo til að borða morgunmat áður en við lentum eftir ca. 9 tíma flug.
Meðan ég stóð við gluggann á flugstöðvarbyggingunni og beið eftir að Randí kæmi með þeim síðustu út fannst mér athyglisvert að Kínverjarnir 12 sem biðu eftir að fá að þrífa vélina stóðu allir uppstilltir eins og her, í þremur fjögurra manna röðum.
Við Randí vorum svo veiddar af hjálplegum pírat-taxi-driver sem keyrði okkur á hótelið fyrir fjórfalt verð. Hótelið var sko ekkert slor, þar leið mér eins og prinsessu. Við notuðum yfirdyravörðinn (the concierge) óspart til að ná í leigubíla fyrir okkur, mæla með fimleikasýningu og hringja og panta miða fyrir okkur. Það var orðið þannig að þegar við fórum út einn eftirmiðdaginn til að skreppa á markaðinn, kallaði hann á eftir okkur: "þið verðið að vera komnar til baka kl. 6 til að fara á sýninguna!"
DAGUR 1: Við komum á hótel Xin Qiao á hádegi á föstudag. Við hentum inn töskunum og rukum beint í leigubíl að skoða "forboðnu borgina". Við ætluðum varla að komast að innganginum fyrir ágengum sölumönnum. Við brostum og sögðum "nei takk" sem við lærðum svo seinna að virkar eins og að segja "eltu mig, eltu mig". En við komumst að lokum inn og gengum í gegnum borgina og skoðuðum garðinn sem fylgir.
Við borðuðum kvöldmat á kínverskum veitingastað á hótelinu. Það var þá sem Randí pantaði risarækju...og fékk EINA rækju! Við tókum mynd og hlógum að henni og svo pantaði Randí annan rétt.
Oooo hvað ég svaf vel um nóttina.
DAGUR 2: Laugardagurinn var verslunardagur. Við fórum á tvo markaði og í verslunarmiðstöð. Um kvöldið fórum við í kínversku óperuna. Þar var okkur vísað til borðs þar sem fyrir sátu 4 kínverjar. Við fengum te og smákökur og horfðum á sýninguna. Hún var leikrit með flottum búningum þar sem söng og fimleikum var fléttað inn í. Gaman að því. Líka gaman að kínverjarnir kenndu okkur að drekka te úr kínverskum bollum. Það voru telauf í bollunum okkar þegar við komum, en kínverjarnir helltu heitu vatni í bollana og sögðu okkur að setja lokið á og bíða smá. Svo drukkum við teið án þess að taka lokið af, heldur notuðum það til að fá ekki laufin upp í okkur, eins og þegar maður hellir vatni af kartöflum og notar lokið svo kartöflurnar detti ekki úr. Það var að sjálfsögðu enginn hanki á bollunum.
Kvöldmaturinn var pizza á PizzaHut í Halloween-stemningu. Rosalega góð pizza.
Svo sturta á hótelinu (rosaleg mengun á götunum) og góður nætursvefn.
DAGUR 3: Á sunnudeginum fórum við á Kínamúrinn. Dyravörðurinn okkar fann leigubílstjóra sem vildi keyra okkur að múrnum, bíða og keyra okkur aftur heim. Við höfðum ekki lent í neinum vandræðum tungumálaséð fram að þessu, því flestir kunna eitthvað smá í ensku eða þekkja einhvern sem getur túlkað. En...þegar við erum nýlagðar af stað uppgötvar Randí að hún hefur gleymt batteríinu af videovélinni á hótelinu. Við vildum snúa við og ná í það, en hvernig áttum við að útskýra það fyrir leigubílstjóranum? Við vorum með hótelnafnspjald, svo við pikkuðum bara í bílstjórann og sýndum honum það, en nei... hann ætlaði með okkur á múrinn. "Þið voruð þarna rétt áðan, mér var sagt að keyra ykkur á múrinn" túlkaði ég út úr kínverskunni hans. Ég sýndi honum tóma plássið á videovélinni þar sem batteríið á að vera og svo hótelmiðann. Hann hlaut að skilja það. "Aa" sagði hann og við önduðum léttar. En hann keyrði okkur ekki á hótelið, heldur stoppaði fyrir utan verslun. "Já, já" sagði Randí "ég kaupi bara nýtt batterí" svo fór hún út. Á meðan reyndi bílstjórinn að tala við mig á kínversku, sem ég er ekki mjög góð í. Hann hringdi greyið í vin sinn sem hefur örugglega átt að tala ensku og rétti mér símann. Eina orðið sem ég skildi var "taliban" og leist ekki á blikuna, en svo heyrðist mér hann segja "tariff". Hann hefur örugglega viljað semja um verð fyrir túrinn. Símtalið skilaði allavegu engu og sem betur fer kom Randí batteríslaus til baka. Það þarf nefnilega að hlaða þessi batterí í 24 tíma fyrir notkun. Nú vildum við bara fara á hótelið og við hefðum gjarnan viljað nýjan bíl og bílstjóra líka. Bíllinn var alger skrjóður með pústlykt og svo reykti bílstjórinn og skildi ekki baun í ensku. Við bentum aftur á hótelmiðann og bílstjórinn var orðinn fúll. Hefur skinjað að hann var að missa túrinn. Hann keyrði þó af stað en upp að öðru hóteli. "Nei hættu nú" sagði Randí "á að þykjast ekki rata til baka?" Sem betur fer talaði dyravörðurinn fyrir framan þetta hótel ensku og við gátum beðið hana að útskýra fyrir bílstjóranum að við vildum bara ná í batteríið og svo ætluðum við upp á múrinn. Þá brosti bílstjórinn og öllum leið betur.
Þegar við komum út fyrir borgina sáum við heiðan himinn í fyrsta sinn síðan við komum til Beijing. Þar er svo mikil mengun. Frá bílastæðinu tókum við kláf upp að múrnum. Við gengum aðeins eftir múrnum og settumst niður og skrifuðum nokkur póstkort, svo tókum við kláfinn niður aftur. Þegar við komum niður var betlari þar að sníkja pening. Ég hef heyrt að margir ágætlega stæðir hafi þetta að atvinnu, en þessi maður hélt um magann og þóttist vera svangur, svo ég tók kex upp úr töskunni og gaf honum. Þá hló hann og fannst ég voða sniðug.
Það var gaman að vera á múrnum og upplifa hann sjálf. Það er allt öðruvísi en að horfa á myndir og ímynda sér. Hann var til dæmis lægri en ég hafði haldið.
Þegar við komum til baka, rukum við í verslunarmiðstöðina og fórum í matarbúðina, það er svo gaman að skoða þar og svo brunuðum við á markað í 10 mín. það voru allir að loka þegar við komum, en það er þá sem maður gerir bestu kaupin. Svo til baka á hótelið, punta sig og fara á fimleikasýningu (acrobatshow). Það var svakalegt. Ég fékk gæsahúð. Svo fallegir búningar og sviðsmynd. Við sátum á öðrum bekk. Í einu atriðinu stóð maður á haus (engar hendur) uppi á pinna sem hann rikkti í hringi, uppi á 8 stóla stafla uppi á borði. Hann náði næstum með tánum upp í loft á leikhúsinu. Í öðru atriði voru 12 kínakonur á einu reiðhjóli. Það voru mörg atriði og öll flott, en því miður mátti ekki taka myndir. Flassið getur truflað einbeitinguna.
Kvöldmaturinn var borðaður á fínum frönskum veitingastað á hótelinu. Namm, namm!
DAGUR 4: Við fórum snemma á flugvöllinn, því við þorðum ekki að treysta á að fá pláss með SAS-vélinni kl. 15 heim. Það voru tvær vélar frá Lufthansa sem fóru til Frankfurt fyrr um daginn og við reyndum að fá pláss með þeim, en þar var allt fullt og yfirbókað. Við hittum norska stelpu á flugvellinum sem hafði verið ein á ferðalagi um Kína í 3 vikur og vildi gjarnan komast heim á sýnum stand-by miða. Þetta var 3. dagurinn hennar á vellinum. Útlitið var ekki gott svo við Randí báðum til Guðs...og það virkaði. Englar eru ekki hvítir með vængi, heldur dökkhærðir með skásett augu og segja: "Þið með stand-by miða. Af hverju bíðið þið hér? Af hverju tékkið þið ykkur ekki inn?"
Við sátum báðar á 1. klassa á leiðinni heim, reyndar ekki saman, en við höfðum það gott. Ég passaði mig að sofna ekki, til að rétta af sólarhringinn, og horfði á 4 bíómyndir eftir matinn.
Það var gott og skrítið að koma heim. Þessi helgi var svo annasöm að hún var eins og vika, minnst.