mánudagur, janúar 31, 2005

Vatnaveisla

Í dag héldum við vatnaveislu. Þeir sem ekki höfðu farið í sturtu hjá ömmunni í gærkvöldi, fóru í bað í dag og við sturtuðum oft niður og þvoðum báðar hendurnar í einu úr volgu vatni. Í gær þurftum við að hella köldu vatni úr könnu með annarri hendi á hina. Uppþvottavélin var sett í gang og þvottavélin og Sveinn þvoði gluggana á húsinu að utan.
Við opnuðum rauðvínsflösku í tilefni dagsins og borðuðum niðurskorna ferska ávexti með vanillukesam í eftirrétt.

Guði sé lof fyrir vatnið og pípurunum fyrir leiðslur inn í hús!

sunnudagur, janúar 30, 2005

Ýmist of eða van...af vatni

Ég hélt ekki að ég svæfi fast, því yfirleitt vakna ég ef börnin rumska á nóttunni. En í morgun fékk ég að vita að það hefði ýmislegt farið fram hjá mér í nótt.

Sveinn vaknaði við einhvern umgang fyrir utan húsið og þegar hann fór að athuga málið sá hann að húsið var allt upplýst að utan af mönnum sem voru þar að skoða og sniglast. Hann snaraði sér í föt og fór út. Þar stóð nágranninn í nýjum læk í garðinum okkar. Vatnsæðin inn í hús nágrannans liggur að hluta undir okkar lóð og hún hafði farið í sundur í nótt. Vatnið flæddi inn í dúkkuhúsið okkar og gamla bílskúrinn undir húsinu sem við notum fyrir hjól og sláttuvél. Sveinn sendi nágrannann (sem heitir Leif og er sá sem gaf okkur öll eplin í haust) eftir símaskrá og svo var hringt í menn frá bænum sem skriðu ofan í brunn og skrúfuðu fyrir vatnið.

Þeir lofuðu að koma með vatnstank í dag með hreinu vatni, en þeir eru ekki komnir enn svo nú er allt vatnslaust í húsunum í kring. Hér vinna menn helst ekki á sunnudögum, svo við verðum að bíða þar til á morgun eftir trygginga- og viðgerðarmönnum.

Leif kom nú áðan og benti mér á útikrana á húsi frænku hans ofar í götunni þar sem við gætum náð okkur í vatn þar til vatnstankurinn kæmi.
Þetta er eiginlega bara allt í lagi og svolítið spennandi að þurfa að bjarga sér við frumstæðar aðstæður. Þetta er eins og þegar rafmagnið var að fara af í gamla daga. Munið þið hvað það var spennandi að leita af eldspýtum í myrkrinu?!

Ég hef komist að því núna að ég þvæ mér svolítið oft um hendurnar. Ég er búin að fara nokkrum sinnum í kranann í morgun af gömlum vana.

Ég held kannski að maður vakni ekki við hvaða hljóð sem er, heldur aðeins þau sem maður hlustar ósjálfrátt eftir. Við Sveinn erum svo gamaldags í genunum að ég vakna ef börnin hnerra og hann ef öryggi heimilisins er ógnað af óviðkomandi á lóðinni!

laugardagur, janúar 22, 2005

Hreinar nærbuxur

Íris Adda er búin að vera í sömu nærbuxunum í allan dag!
Henni er búið að ganga svo vel að pissa og... í koppinn undanfarið að við fórum í búðina í gær og keyptum 4 nýjar nærbuxur. Hún valdi svo nærbuxur að fara í í morgun og þær eru ennþá hreinar :)
Húrra fyrir henni!!!

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Inga og Eirik Peirik Pling

Jólin eru búin í Noregi og ég er búin að vera að vinna soldið meira en 20%. Ég er búin að vinna hvern morgunn upp á síðkastið og oft fer ég aftur í vinnuna eftir að Sveinn er kominn heim. Það er svo mikið að gera í sambandi við launamiðana sem eiga að vera tilbúnir þann 20. jan. Hjá mínu fyrirtæki eru 77 starfsmenn. Sumir útlendingar og mismunandi reglur sem gilda. 7 mismunandi tryggingar sem þurfa að færast á mismunandi marga starfsmenn, ferðareikningar, km., diett og frír sími. Þetta þarf allt að færast inn í launakerfið á rétta kóda og afstemmast. Og það er EKKI LÉTT. Ég hugsaði svo mikið hérna um daginn að ég varð heit í höfðinu og fékk hausverk. Svo sofnaði ég með Írisi kl. 20 og svaf fram á næsta morgun.

Íris er hjá dagmömmu á meðan ég er að vinna og það er farið að ganga ágætlega. Hún er hætt að gráta þegar ég fer. Vinkar mér bara bless.

Fellibylurinn Inga reið yfir Sandnes í gær og feykti þakplötum af stórmarkaðinum svo þær skemmdu 15 bíla. Lögreglan stöðvaði alla umferð í kringum stórmarkaðinn og rýmdi húsnæðið og bílastæðið. Sem betur fer slasaðist enginn.
Fleiri götum var lokað. Einni t.d. af því að tré lá yfir götuna.

Maður nokkur að nafni Eirik Stolbæk fékk upphringingu í dag frá Hagstofunni um að umsókn hans um nafnabreytingu hefði verið samþykkt. Nú heitir hann Eirik Peirik Pling Stolbæk. Þetta kom honum svolítið á óvart þar sem hann hafði ekki sótt um neina nafnabreytingu. Hins vegar grunaði hann vinnufélaga um græsku. Eirik er farinn að venjast nýja nafninu og allri athyglinni sem hann fær út á það. Hann er að íhuga að halda því og vonast jafnvel til að geta sagt upp daglaunavinnunni og gerst frægur:) Hagstofunni aftur á móti finnst þetta ekki fyndið, heldur alvarlegt mál að hver sem er geti sótt svona um nafnabreytingu fyrir aðra. Það er mjög mikilvægt, segja þeir, að þjóðskráin sé nákvæm og rétt.