föstudagur, mars 25, 2005

Hvernig ætlar Fischer að geta selt nýju skákklukkuna sína eftir yfirlýsingar þess efnis að skákin sé steindauð?
Annars erum við öll búin að fara í sturtu og punta okkur og erum á leið í matarboð á Welhavensvei...vei! :)

fimmtudagur, mars 24, 2005

Hvað er yndislegra en að vakna við sólskin og fuglasöng. Heyra í börnunum í fallegum leik úti í garði. Fara niður og finna karlinn sópandi í forstofunni og ilmandi nýlagað kaffi í eldhúsinu.!?!

Nú er vorveður!
Börnin sippa og blása sápukúlur og Sveinn þvær bílinn. Ég skipti á rúmunum og sit úti með kaffið!

Nokkrar nýjar myndir á bls. 4 í marsalbúminu.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Páskafrí

Það er gott að vera komin í páskafrí!
Veðrið var svo fínt í dag að krakkarnir voru meira og minna úti. Þau hjóluðu, löbbuðu út í búð með flöskur og keyptu snakk (hér eru tómflöskumóttakarar í öllum matarbúðum) og fóru í vatnsstríð við stelpurnar í næsta húsi.
Mamma kom og við fórum í göngutúr niður að vatni að skoða nýja fuglahúsið. Það er búið að byggja yfirbyggða bryggju á tveimur hæðum út í vatnið sem er ætluð fólki sem vill fylgjast með fuglalífinu. Þar inni eru bekkir til að sitja á og svo eiga að koma fróðleiksplaköt um hinar ýmsu fuglategundir. Formleg opnun verður 20. apríl.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Sigrún Erla segir...:

Hæ!
í dag í skólanum áttum við að taka með flöskur sem var hægt að endurvinna, og vinalína rauðakrossins fyrir börn og unglinga fær peningana.
kristine ætlaði að leika við mig eftir skóla en svo var fundur í kærastahópnum þannig að hún þurfti að mæta á hann og ég mátti ekki vera með af því að ég á ekki kærasta. ASNALEGT!:/
Bless bless
Sigrún Erla

föstudagur, mars 04, 2005

Atli 6 ára

Atli stóð smá stund fyrir framan spegilinn í morgun og spurði svo varlega: ,,finnst þér ég vera orðinn eitthvað stærri?"
Hann tók með sér köku í leikskólann og naut sín þennan morguninn. Hann fann virkilega að þetta var hans dagur. Hann tók svo 3 stráka með sér heim af leikskólanum þar sem veislan hélt áfram. Þegar strákarnir fóru komu amma og Bergþóra og Helga, Atli Þór og Viktoría í heimsókn. Þegar síðustu gestirnir fóru fór Atli í bað, til að slaka á og ná sér niður, áður en hann fór að sofa í nýju Turtles rúmfötunum.

Myndir í albúminu :)

þriðjudagur, mars 01, 2005

Adda reddar saumavél, Atla til góðs!

Nú er ég stolt af mér!
Þegar ég sótti Atla í leikskólann var ekki sjón að sjá hann. Útigallinn hans var rennandi blautur og grútskítugur. Stór saumspretta á rassinum, svo vattið blasti við og önnur á hnénu.
Mín fyrsta hugsun var að henda gallanum og kaupa nýjan. En...í dag er ég búin að þvo gallann, þurrka hann og draga fram saumavélina og sauma allar saumsprettur. Atli mætir því sómasamlegur til fara í leikskólann á morgun, í galla sem ætti að endast út veturinn :)


Það var Adda sem reddaði mér saumavélinni!
Mamma kom með saumavélina sína hingað til að aðstoða mig við að sauma gardínur í stofuna. Þegar enginn sá til snéri Íris einum takka pínulítið...
Mamma hélt að nú væri gamla vélin farin að gefa sig. Orðin svona gömul...Eitthvað farin að vanstillast...Örugglega bara ónýt.
Hún hafði orð á þessu við Ove, sem í laumi keypti nýja saumavél.

Mamma ákvað nú að fara með saumvélina í tékk...svona áður en hún henti henni. Viðgerðarmaðurinn snéri takkanum til baka á sinn stað og sagðist aldrei hafa séð betra eintak. Hún væri jafn góð og ný. Þegar mamma kom brosandi heim með saumavélina tók Ove á móti henni með þessa nýju.

Þar sem mamma hefur ekkert að gera með tvær og þessi nýja getur líka overlookað, fékk ég þá gömlu :) Og hún var vígð í dag á útigallanum hans Atla.

Svo ætla ég mér að sauma minnst tvö bútateppi. Ég er farin að safna gömlum fötum í búta!