fimmtudagur, júní 30, 2005

Góða veðrið er komið!

Loksins kom almennilegt sumarveður. Hitinn er búinn að vera um 15 -17 gráður undanfarið og allt í lagi veður, en í dag var sko 25 stiga hiti. Mamma og Bergþóra fóru með Sigrúnu, Söndru og Írisi á Sola-strönd í dag. Atli fór heim með vini sínum af leikskólanum og ég fór í sólbað í garðinum og naut þess að vera ein heima. Við grilluðum svo að sjálfsögðu þegar allir voru komnir heim. Kjúklingabringur og pulsur.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Jónsmessa

Það var þrælgott veður í dag og við brugðum okkur á Vaulen-ströndina í sólbað. (myndir i albuminu)
Fórum svo heim og grilluðum og gengum svo niður að vatni þar sem fólk var samankomið í kringum Jónsmessu bálið!

laugardagur, júní 11, 2005

Sandra er komin :)

Það var ekkert smá dugleg stelpa sem kom til okkar í dag!
Sandra er 15 ára og hefur aldrei farið til útlanda áður, en henni fannst nú ekki mikið mál að fara ein til Osló, finna töskuna sína, koma henni í gegnum tollinn, tékka bæði sig og töskuna inn aftur og koma sér í vél til Stavanger. Hún ætlar að vera hjá okkur í sumar, þar til við förum til Íslands 24. júlí.

mánudagur, júní 06, 2005

Írisi Öddu var boðið í 4 ára afmæli niður á strönd. Hún var svo ánægð og stollt að vera boðið í afmæli, því hingað til hafa bara Atli og Sigrún Erla farið í afmælisboð. Hún valdi sjálf kjól að fara í og dansaði í honum fyrir framan spegilinn og söng. Hún fór svo í sparikápuna utan yfir og við fórum bara tvær hönd í hönd, hún valhoppandi, út í dótabúð að kaupa pakka. Hún valdi sjálf Pony-hest og fékk svo sjálf að halda á pokanum með pakkanum í. Hún naut sín svo í veislunni. Þar voru 5 prinsessur sem átu grillaðar pulsur í tjaldvagni og mokuðu í sandinum og hoppuðu á litlu trampolíni niðri á strönd. Voða gaman...og svo fékk hún bland í poka!

Atli smíðaði fuglahús og Sveinn smíðaði vinnuborð í gróðurhúsið. Við börnin sáðum radísum, persillu og papriku í bakka inni í gróðurhúsi. Við erum að vonast til að matjurtirnar fái frekar frið fyrir skordýrum í gróðurhúsinu en úti í beði.

Hér voru Sandnes-dagar í síðustu viku með ýmsu um að vera niðri í bæ. Við gengum að sjálfsögðu göngugötuna og keyptum candyflos, kók og skó og fengum gefins pizzu og stuttermaboli og Atli og Íris hoppuðu í hoppukastala.