Vöfflubakstur í næsta húsi
Íris Adda hvarf okkur sjónum í fyrradag. Við fundum hana hvergi í kringum húsið, svo við skiptum liði og fórum að leita. Fyrst vorum við róleg og bjuggust við að finna hana á hverri stundu og svo vorum við orðin hrædd og farin að leita niður við vatn og uppi í búð.
Hún kom svo sjálf heim, skömmustuleg og sagðist hafa kúkað í bíl nágrannans. Ég þreif upp eftir hana og fannst þetta nú nógu vandræðalegt. En, nei... seinna um daginn kom nágranninn til að láta mig vita að hún hafði líka verið í eldhúsinu hans. Að reyna að baka vöfflur, hélt hann. Það var smjör og hveiti út um allt. Klínt í stólasessurnar og teppið.
Annars er veðrið bara heitt. Við kælum okkur með garðúðaranum. Aðalsportið er að setja hann undir trambólínið og hoppa í gosbrunninum.
Sandra, Sigrún og Atli eru núna niðri við Stokkalandsvatn að synda. Sveinn fékk sér göngutúr með myndavélina að kíkja á þau. Kannski fáið þið myndir á eftir :)