Strax eftir vinnu og skóla á föstudaginn var brunuðum við út á flugvöll og tókum fyrstu vél til Köben. Það var gaman að sjá Kristján og Stellu og íbúðina þeirra sem er mjög rúmgóð. Við drukkum te, átum mjög góða pizzu, pumpuðum í stóra vindsæng og horfðum á íslenska bachelorinn (af hverju heitir hann ekki frekar piparsveinn?).
Á laugardaginn gengum við Sigrún Erla Strikið og Kaupmannsgötu. Við keyptum 1 peysu, reykelsi, sælgæti, ristaðar möndlur og pulsur. Þegar okkur var farið að verkja í fæturna fengum við okkur klukkutíma siglingu um síki Kaupmannahafnar. Við hittum svo Kristján og Stellu við Rundetårn og fórum öll út að borða á mjög góðan veitingastað. Virkilega góður matur!
Á heimleiðinni gengum við í gegnum standandi Hrekkjavökupartý með grímubúningum, hljómsveit og veitingum! Svo var það metró heim að skera út grasker og baka muffins með graskersbitum. Namminamm! Og ég hef aldrei séð flottara grasker, þó ég segi sjálf frá!
Á sunnudaginn fórum við í dýragarðinn og þar náðum við að heilsa upp á Védísi og Baldur og Ásdísi sem voru líka að ganga um garðinn í góða veðrinu. Þó við hefðum verið með nesti vorum við samt orðin mjög svöng eftir allt labbið um garðinn, svo við komum við hjá Massimo á heimleiðinni og tókum með okkur pizzur heim. Namminamm, Massimo bregst ekki!
Þó það væri að byrja að dimma, gátum við ekki farið heim án þess að prófa hjólið! Við fórum því hjólatúr út í ísbúð. Kristján á venjulegu hjóli og vísaði leiðina og ég á eftir á Kristjaníuhjólinu með Sigrúnu Erlu í kassanum. Það var svaka fjör. Svo fékk ég líka að prófa að sitja í kassanum á planinu heima. En ísinn var ekkert smá góður. Þetta er sko alveg spes ísbúð sem býr til ísinn sjálf og ég hef aldrei smakkað betri ís!
Svo var bara að pakka tómum töskum oní eina stóra og taka strædó út á flugvöll. Það hefði ekki getað verið einfaldara. Strædó stoppar rétt hjá Kristjáni og Stellu og fer beina leið út á völl.
Nú ætla ég að segja ykkur...ég veit ekki...þegar ég tékkaði inn einu töskuna okkar hafði inntékkarinn mikinn áhuga á golfkúlunum sem voru undir töskunni í staðinn fyrir hjól! Hvað er þetta? spurði hún. Af hverju eru þær þarna? Eru þær alveg fastar? (og svo tók hún í þær) Vá! og svo hló hún smá og horfði á eftir töskunni inn á færibandið. ... Þegar við fengum töskuna okkar til baka í Stavanger...VANTAÐI BÁÐAR GOLFKÚLURNAR! Hvað finnst ykkur um það?
Þegar við komum heim var bara gat í gólfinu þar sem áður höfðu verið tröppur. Við pössuðum okkur að detta ekki í gatið og lögðumst til svefns í stofunni. Daginn eftir kom nýja trappan í 3 einingum og var komin upp fyrir hádegi. Svaka fín!
Eftir hádegi kom rafvirki og hann kom aftur í dag og þarf að koma enn eina ferðina að breyta hinu og þessu og finna út úr hobbímixi fyrrum eiganda hússins. Við erum sammála um að rafmagnið þarf að vera í lagi.