Við fórum í okkar árlegu skógarhöggsferð í dag. Fórum í jólatrésskóginn hjá Henrik og fundum okkur tré. Súperfínt eðalgreni. Settumst svo inn í íbúðarskúrinn hjá fingralausum föður Henriks og átum graut og drukkum glögg með Allis, Edith og fjölskyldum.
(Allis og Edith vinna með mér og Henrik er vinur Allis)
2 dagar í jólafrí hjá mér og skólakrökkunum.
Dagbók Bellu og Svenna
Dagbók og myndir frá Sandnes í Noregi
sunnudagur, desember 18, 2005
föstudagur, desember 16, 2005
Í dag var jólasveinahátíð í leikskólanum. Íris mætti í jólasveinabúningi og svo kom alvöru jólasveinn og deildi út mandarínum og borðaði jólagraut með börnunum.
Það var líka jólagrautur í skólanum hjá Atla.
Það er svolítil vinna þessa dagana að fylgjast með hverjir eiga að hafa nesti, ekki nesti, svuntu, rauð föt, Luciuföt... osfrv.
Í gærkvöldi var hátíð í skólanum hjá Atla og Sigrúnu. Það voru seldar veitingar og jólaföndur og börnin voru með skemmtiatriði. Þau stóðu sig mjög vel og það var gaman að horfa á. Allir sungu saman hópsöng og svo voru nokkrir með sér atriði. Sigrún og Kristine sýndu frumsaminn dans og Atli fór með ljóð ásamt bekkjarsystur sinni.
Það er töluvert lagt upp úr því í skólanum að börnin venjist því að koma fram. Það eru alltaf reglulega samkomur þar sem börnin fá að sýna dans, syngja, spila á hljóðfæri eða sýna leikrit. Þau ráða sjálf hvort þau komi fram og hvað þau gera og það er mjög vinsælt meðal barnanna að fá að koma fram. Þetta er mjög gott upp á framtíðina, þar sem fólk er oft feimið að koma fram.
þriðjudagur, desember 13, 2005
Santa Lucia
Í dag er Lúsíudagur!
Börnin í leikskólanum hennar Írisar voru fengin til að vera með á opnunarhátíð hjálpræðishersins á nýrri verslun. Þau voru uppdubbuð í hvítum skyrtum, með glit í hári og luktir og sungu og deildu út piparkökum. Því miður sá ég þau ekki, þar sem ég varð að mæta í vinnu, en ég frétti að það hefði verið erilsamt, en að allt hefði gengið vel.
Sigrún Erla og Atli bökuðu piparkökur í íslenskunni í dag. Ég fékk að smakka og þær eru MJÖG góðar :)
Við Randi tókum lestina inn í Stavanger áðan og fengum okkur rauðvín á bar áður en við fórum á jólatónleika í dómkirkjunni. Á meðal tónlistaratriðanna var vinkona Randiar með einsöng. Þetta var mjög huggulegt og hjálpaði upp á jólastemninguna. Við fengum svo far með söngkonunni heim.
mánudagur, desember 12, 2005
Spúkí
Ég fékk símhringingu áðan...svona 10 mín. eftir að ég hafði talað við bankann...frá sjálfvirkum símsvara sem sagði: ,,Congratulation! You have won a cruse on the Carabean, press 9! Press 9!" Mér brá svo að ég skellti á! Hafið þið lent í svona?
Ef ég vinn einhvern tíman siglingu um karabíska hafið, vona ég að ég fái að vita það á manneskjulegri hátt! Ég þorði allavega ekki að ýta á 9.
sunnudagur, desember 11, 2005
Jólahlaðborðahelgi
Á föstudagskvöldið fórum við Sveinn í leikhús og jólahlaðborð með vinnufélögum Sveins. Sigrún Erla fór í afmæli til Kristine vinkonu sinnar og gisti hjá henni um nóttina og amman kom og passaði Atla og Írisi á meðan.
Á laugardagskvöldið fórum við Sveinn á jólahlaðborð með vinnufélögum mínum og Bergþóra gisti og passaði öll þrjú börnin á meðan.
Í dag fórum við fjölskyldan svo inn í Stavanger og röltum um jólaþorpið sem er búið að setja þar upp við tjörnina. Snjóskaflinn var vinsælastur! Það var búið að sturta einu vörubílshlassi af snjó ofan úr fjöllum í hrúgu við jólþorpið og þar klifruðu börnin og renndu sér niður. Við röltum svo göngugöturnar og borðuðum pizzu á Peppes.
Spennandi að vita hvort Stekkjastaur fái tíma til að kíkja til Noregs í nótt!
sunnudagur, desember 04, 2005
Eins og vanalega
Ég eldaði pizzu í matinn í dag og eins og vanalega gerði ég allt of mikið botndeig. Ég þurfti því líka að gera samlokupizzu, hvítlauksbrauð, pulsur í felum og pizzusnúða. Þetta er ágætt, nú á ég skólanesti fyrir börnin út vikuna!
Atli var hjá Håkon, vini sínum úr leikskólanum, í allan gærdag og í nótt. Þegar foreldrarnir komu að skila honum í dag varð Håkon svo eftir hjá Atla í 2 tíma. Þeir eru voða góðir saman.
Annars er Sveinn að leggja parkett á svefnherbergisganginn uppi, Íris er í ballettkjól og horfir á Línu og Atli kveikir í blýanti á aðventuljósunum (úff!)... Allt eins og vanalega.