Atli meiðir sig
Atli datt af steini í skólanum í dag! Lenti með hægri hendina beint á annan stein og meiddi sig mikið. Þegar hann var búinn að sitja dágóða stund með ís á hendinni og ekkert batnaði, hringdi kennarinn í mig og spurði hvort hann ætti að senda Atla heim.
Atli kom heim í fylgd fullorðins manns. Ég hafði séð hann áður, kannaðist við andlitið, en kom því ómögulega fyrir mig hver þetta væri. Maðurinn var mjög almennilegur. Hélt á töskunni fyrir Atla og sagðist sjálfur einu sinni hafa handleggsbrotnað og kannski væri skynsamlegt af okkur að láta lækni kíkja á þetta. Ég þakkaði honum fyrir og kvaddi og spurði svo Atla hvað maðurinn héti. ,,Hann heitir Pål!" Þá var þetta skólastjórinn!
Atli ætlaði ekki að vilja til læknis, en þegar ég lofaði honum verðlaunum kom hann með mér. Við biðum leeengi á læknabiðstofunni því við áttum ekki pantaðan tíma og þurftum að bíða þar til rétt fyrir lokun. Læknirinn var ekki viss um hvort Atli væri brotinn og vildi taka röntgenmynd til öryggis. Við Atli keyrðum því á sjúkrahúsið í Stavanger (þar sem hann fæddist á sínum tíma) og þar var tekin mynd. Og...hann er handleggsbrotinn! og er nú með gips.
Og annað!... Fyrir 6 dögum síðan fékk Atli gat í eyrað!