föstudagur, febrúar 23, 2007

Hanahallen er stengt for trening i vinterferien

Ég ætlaði á taekwondo-æfingu.
Straujaði gallann, tók af mér hringinn, vatn í brúsa og keyrði af stað til Hana. Þegar ég kom á staðinn var íþróttahúsið læst og ljósin slökkt. Ekki sálu að sjá. Bara myrkur og ískalt rok.
Ég hafði spurt þjálfarann síðast hvort það yrðu æfingar í vetrarfríinu og hann sagði ákveðið að það ætti að vera æfing í dag.
Ég gat samt ekki betur séð en ég hefði farið fýluferð. Ég settist aftur upp í bílinn, pínu vonsvikin og ætlaði heim. En bíllinn startaði ekki. Engin viðbrögð, alveg dauður. Ég sá enga lausa víra og kann ekki mikið á bílvélar, þó ég hafi náð prófinu á sínum tíma. Enginn annar á stóra bílastæðinu, bara myrkur og ískalt rok.
Ég tek hvorki með mér síma né peninga á æfingar, því það hafa horfið hlutir úr búningsklefanum. Annsans... ég gat ekki annað en hlegið að mér...hvað átti ég að gera?

Ég gekk upp að næsta uppljómaða íbúðarhúsi og fékk að hringja. Sveinn ætlaði að koma og bjarga mér. Ég settist aftur út í bíl til að bíða og hvað er eðlilegra en að prófa einu sinni enn að starta á meðan maður bíður? Bíllinn rauk í gang!
Átti ég að fara aftur að fá lánaðan síma og segja Sveini að hann þyrfti ekki að koma? Neei.
Átti ég að sitja og bíða eftir honum til að segja honum þegar hann kæmi, að hann hefði ekki þurft að koma? Neei.
Þá var best að keyra af stað á móti honum. Ég ríndi á alla bíla sem ég mætti í myrkrinu til að gá hvort það væri Sveinn. Þegar ég var nærri komin heim var ég farin að hafa áhyggjur af að hann hefði farið aðra leið, en þá loksins sá ég hann, blikkaði og við stoppuðum bæði fyrir utan búðina okkar.
Púströrið hafði farið í sundur á bílnum fyrir stuttu síðan og þegar Sveinn var að sjóða það saman tók hann strauminn af bílnum á meðan og hafði svo ekki hert skrúfurnar nógu vel á eftir. Það var skýringin á sambandsleysinu.
Við fórum bara inn í búðina, keyptum bjór, gos, snakk og nammi. Svo fór ég heim til krakkanna en Sveinn fór á videoleiguna svo kvöldið virðist ætla að enda vel!
Ég hefði betur kíkt á heimasíðuna áður en ég lagði af stað.

Rok og kuldi

Ég svaf varla neitt í nótt. Lá bara í rúminu og hlustaði á þaksteinana dansa og beið eftir að stóra thujan dytti á húsþakið, beint á herbergið hans Atla.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Göngutúr og sund

Það var engin taekwondo-æfing í dag vegna þess að það er vetrarfrí í skólunum og íþróttahúsið lokað. Ég varð því að finna sjálf upp á einhverri hreyfingu.
Ég skellti Írisi í vagninn og þrammaði með hana hringinn í kringum Stokkalandsvatnið (4 km). Henni finnst rosa sport að fá að sitja í vagninum þó hún sé orðin allt of stór í hann og þurfi að liggja með bogin hné.
Svo dró ég Svein með mér, Atla og Írisi í sund. Ég hef aðgang að sundlaug og gufu í vinnunni minni, tvo daga í viku. Ég opna bara sjálf með kortalyklinum mínum og kveiki ljósin og hita gufuna og hef staðinn fyrir mig (nema aðrir komi). Það er enginn sundlaugarvörður og laugin er djúp, svo það er atriði að vera 2 fullorðnir saman. Af öryggisástæðum.
Atli hefur verið á sundnámskeiði síðan í janúar og var mjög ánægður að geta sýnt okkur að hann kann að synda.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Fastelavensöndag

Í dag er fastelavensöndag (bolludagur) í Noregi.
Atli bjó til bolluvönd í skólanum fyrir helgi. Það er ekki spýtustöng og kreppappír eins og á Íslandi, heldur birkigreinar sem eru skreyttar marglitum fjöðrum. Honum fannst svo gaman að búa þetta til að við fórum í göngutúr í gær og klipptum ferskar birkigreinar í skóginum við vatnið. Marglitar fjaðrir fundum við uppi á hálofti hjá páskaskrautinu og litla víra í plastpokaskúffunni. Svo föndraði Atli 4-5 vendi í viðbót alveg sjálfur og fór svo út að selja. Hann gekk í húsin í nágrenninu og bauð fólki vendi til kaups. Hann náði að selja alla vendina og fékk 80 Nkr.

Við Sveinn vorum bolluð í morgun með íslenskum kreppappírsspýtubolluvendi svo ég varð að baka bollur (Hefði sjálfsagt gert það hvort eð er). Ég bakaði vatnsdeigsbollur sem við fylltum með sultu, rjóma og rommbúðing. Namm, namm!

Írisi var boðið í afmæli í dag til stráks af leikskólanum. Ég ætlaði nú bara að skutla henni og sækja hana, en hún var hálffeimin að fara ein inn svo það endaði með því að ég sat alla veisluna með henni.
Þegar við komum heim var Sveinn búinn að elda íslenskt hangikjöt með baunum og rauðkáli.