Hanahallen er stengt for trening i vinterferien
Ég ætlaði á taekwondo-æfingu.
Straujaði gallann, tók af mér hringinn, vatn í brúsa og keyrði af stað til Hana. Þegar ég kom á staðinn var íþróttahúsið læst og ljósin slökkt. Ekki sálu að sjá. Bara myrkur og ískalt rok.
Ég hafði spurt þjálfarann síðast hvort það yrðu æfingar í vetrarfríinu og hann sagði ákveðið að það ætti að vera æfing í dag.
Ég gat samt ekki betur séð en ég hefði farið fýluferð. Ég settist aftur upp í bílinn, pínu vonsvikin og ætlaði heim. En bíllinn startaði ekki. Engin viðbrögð, alveg dauður. Ég sá enga lausa víra og kann ekki mikið á bílvélar, þó ég hafi náð prófinu á sínum tíma. Enginn annar á stóra bílastæðinu, bara myrkur og ískalt rok.
Ég tek hvorki með mér síma né peninga á æfingar, því það hafa horfið hlutir úr búningsklefanum. Annsans... ég gat ekki annað en hlegið að mér...hvað átti ég að gera?
Ég gekk upp að næsta uppljómaða íbúðarhúsi og fékk að hringja. Sveinn ætlaði að koma og bjarga mér. Ég settist aftur út í bíl til að bíða og hvað er eðlilegra en að prófa einu sinni enn að starta á meðan maður bíður? Bíllinn rauk í gang!
Átti ég að fara aftur að fá lánaðan síma og segja Sveini að hann þyrfti ekki að koma? Neei.
Átti ég að sitja og bíða eftir honum til að segja honum þegar hann kæmi, að hann hefði ekki þurft að koma? Neei.
Þá var best að keyra af stað á móti honum. Ég ríndi á alla bíla sem ég mætti í myrkrinu til að gá hvort það væri Sveinn. Þegar ég var nærri komin heim var ég farin að hafa áhyggjur af að hann hefði farið aðra leið, en þá loksins sá ég hann, blikkaði og við stoppuðum bæði fyrir utan búðina okkar.
Púströrið hafði farið í sundur á bílnum fyrir stuttu síðan og þegar Sveinn var að sjóða það saman tók hann strauminn af bílnum á meðan og hafði svo ekki hert skrúfurnar nógu vel á eftir. Það var skýringin á sambandsleysinu.
Við fórum bara inn í búðina, keyptum bjór, gos, snakk og nammi. Svo fór ég heim til krakkanna en Sveinn fór á videoleiguna svo kvöldið virðist ætla að enda vel!
Ég hefði betur kíkt á heimasíðuna áður en ég lagði af stað.