þriðjudagur, maí 29, 2007

Bella amma kom á föstudaginn og ætlar að vera í tvær vikur. Það er mjög gaman að hafa hana, en ég veit ekki hversu skemmtileg við erum... Öll fjölskyldan, nema Sigrún Erla er komin með kvef. Ég fer ekki í vinnuna í dag og Atli og Íris eru líka heima. Við bara drekkum te, hóstum og snítum okkur.
Við ætlum nú samt að stelast út á eftir og koma ömmu í EOS400D hópinn ;)

miðvikudagur, maí 23, 2007

Ølberg

Nú er verið að undirbúa Sigrúnu Erlu undir Ølbergsferðina. Allur bekkurinn er að fara í skólaferðalag niður á strönd. Þau gista í stóru húsi í tvær nætur og kennararnir koma niður á strönd og kenna þeim á morgun og hinn.
Foreldrarnir skiptast á að vera á vakt og ég verð þar á fimmtudagskvöldið milli kl. 20 og 24. Aðalstuðkvöldið!
Ferðin er skipulögð af foreldrafélaginu og kennararnir eru svo almennilegir að koma niður á strönd að kenna þeim og miða kennsluna að aðstæðum.
Eitthvað skemmtilegt þurfa þau að gera saman áður en hópurinn splittast næsta haust þegar þau fara í unglingaskóla (gaggó).

laugardagur, maí 19, 2007

Dagsferð til Osló

Passarnir hjá Atla og Sigrúnu runnu út í júní í fyrra og Sveins passi rennur út á þessu ári svo það var ekkert annað að gera en að fara í sendiráðið og endurnýja.

Íris Adda fékk að gista hjá ömmu sinni aðfaranótt föstudags og vera hjá henni allan föstudaginn svo við hin gætum vaknað eldsnemma og eytt öllum föstudeginum í Osló.

Við tókum flug kl. 7:25 og byrjuðum á að græja passana í sendiráðinu. Röltum svo niður á Akerbryggju og tókum ferju yfir á Bygdø þar sem við skoðuðum Fram, skipið sem Amundsen fór á til suðurpólsins og Nansen til norðurpólsins og KonTiki.

Tókum ferjuna svo aftur til baka og röltum upp að höllinni og fylgdumst með vaktaskiptunum. Verðirnir hér eru frjálsari en í Danmörku og mega alveg svara einföldum spurningum og brosa smá. Atli og Sigrún stilltu sér upp hjá einum þeirra fyrir myndatöku og hann sagði við þau: ,,standiði bara hér". Þegar ég ætlaði að smella af var dúskurinn á húfunni hans í andlitinu á honum. Ég vildi bíða með að taka mynd þar til dúskurinn fyki frá, en þá gerði hann sér lítið fyrir og sveiflaði höfðinu (svo dúskurinn fór frá) og brosti um leið. Og þá smellti ég af.

Við gengum svo Carl Johan og skoðuðum í Oslo City (verslunarmiðstöð).
Rosalega mikið af dópistum, mellum og sníkjurum í borginni, sorglegt.

Tókum svo lestina aftur út á flugvöll og vorum lent í Stavanger kl. 21:25
Langur og upplifunarríkur dagur í smá rigningu og köldum vindi.

fimmtudagur, maí 17, 2007

17. mai

Gi meg en s
S!
Gi meg en ø
Ø!
Gi meg en r
R!
Gi meg en b
B!
Gi meg en ø
Ø!
Hva blir det?
Sørbø!
Hørte ikke
Sørbø!
En gang til
Sørbø!
Høgere
SØRBØ!
Hakk i plata
SØRBØ! SØRBØ! SØRBØ!

IMI barnehage nøff, nøff, nøff
Ingen barnehage er så tøff!
HURRA!

miðvikudagur, maí 16, 2007

Fór í 3 tíma æfingu í gær í Taekwon-do með sjálfum meistaranum í Noregi, Per Andersen! Það er hann sem skrifar kennslubækurnar. Það var mjög gaman, hvetjandi og lærdómsríkt. Að lokum skrifaði hann nafnið sitt á beltið mitt...ligga, ligga, lá!
Ég hafði eiginlega hugsað mér að taka því pínu rólega eftir hádegi í dag, en það varð ekki alveg...Íris Adda tók 3 gesti með sér heim af leikskólanum svo þetta er búið að vera hálfgert barnaafmæli.
Í kvöld þarf ég að fara að undirbúa morgunmat fyrir lúðrasveitina. Það er siður að hún komi að huggulegu morgunverðarhlaðborði í skólanum áður en hún blæs lúðra í 17. maí-barnaskrúðgöngunni.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Við notuðum kröfudaginn til að fara í lautarferð með nesti í Arboretet (skógræktarskógur/grasagarður). Sandra, Ölnir og krakkarnir komu með okkur og veðrið var bara yndislegt. Við fundum okkur góðan stað í grasinu við vatn, breiddum úr dúkunum og tókum upp nestið. Krakkarnir klifruðu í trjám, bleyttu sig í vatninu og rifust um sundbolta.
Seinnipartinn notaði Sveinn til að pússa upp sólpallinn og Atli skar út flautur úr holum trjágreinum.
Svo er bara aftur "mánudagur" á morgun.