miðvikudagur, júní 27, 2007

Grasofnæmi og blóðprufa

Við Atli fórum til læknis í dag og hann tók blóðprufu úr okkur báðum.
Ég er búin að komast að því með heima-tilraunarstarfsemi að Atli er með ofnæmi fyrir frjókornum (að öllum líkindum grasi) og þar sem það er gífurlegur verðmunur á ofnæmislyfjum eftir því hvort maður er með "resept" eða ekki vildum við fá það skjalfest.
Talandi um gífurlegan verðmun... börn með resept borga kr. 0,- fyrir ofnæmislyf og fullorðnir með resept borga 5% af því sem lyfin myndu annars kosta.

Svo er bara að vona að blóðprufan sanni á okkur ofnæmið.
Atli fór í prufu fyrir 2 árum og þá kom ekkert fram.
En allavega... ég lýsti tilraunastarfseminni minni og einkennum Atla fyrir lækninum og hann sagði að það væru ekki bara líkur á að Atli væri með ofnæmi, heldur væri ég búin að sanna það. Það þarf bara að vera skjalfest með blóðprufuniðurstöðu fyrir lyfja/lækna-eftirlitið.

sunnudagur, júní 24, 2007

Grill og slit...slit og grill

Síðasta vika fór í allskyns skólaslit; Skólaslit í Sörbö skóla, skólaslit með tónleikum í pianoskólanum og skólaslit hjá 7.bekk þar sem Sigrún fer í unglingaskóla á næsta ári. Það var þar sem Sigrún Erla sýndi töfrabrögð (sjá myndir).
Auk þessa var sumargrill hjá Taekwon-do, út að borða með vinnunni og auðvitað 17. júní grill hjá Íslendingafélaginu. Svo við höfum haft í nógu að snúast.
Milli grillveislna og skólaslita reyndum við svo að borða það sem til var í frystinum til að reyna að tæma hann. Í gær afþíddi ég svo frystinn og þreif hann og ísskápinn með klór.
Sigrún Erla fer svo til Íslands á morgun.

laugardagur, júní 16, 2007

Okkur er öllum batnað kvefið og amma er farin aftur heim til Íslands. Við náðum að gera heilmargt skemmtilegt saman. Við fórum út að leika með myndavélarnar okkar. Fórum í göngutúra um hverfið, miðbæinn og í grasagarðinn. Við fórum í sólbað við Bråsteinvatnið og sátum í skugganum á efri veröndinni þegar það var of heitt í sólinni.

Íris er byrjuð í Brueland barnehage í fullu plássi. Hún er alsæl. Þar er mikið stærra útipláss en á Imi og fleiri krakkar. Mér finnst líka heilmikill munur að losna við stressið að vera búin að sækja hana fyrir kl 12:30

Ég fór í nýtt beltapróf og er komin með GULT belti í Taekwon-do (8.gup).
Voða stolt. Fékk engar neikvæðar athugasemdir. Gat svarað munnlegu spurningunum með sóma og gerði allar 12 armbeygjurnar á tánum! Gat gert 3 á hnjánum í janúar svo mér hefur farið fram!