föstudagur, september 28, 2007

Ævintýralegur göngutúr

Þessa dagana eru ævintýradagar í Sandnes.
Ég gekk með krakkana áðan í Sandvedparken þar sem búið var að auglýsa "ævintýrastíg". Þegar við komum í garðinn voru þar ca. 1000 manns. Búið að hengja marglitar luktir í trén og víða mátti sjá verur úr ævintýrum. Prinsessur, prinsa, galdrakonur, grísi og úlfa. Soffía frænka og bæjarfógetinn Bastian voru þarna líka.
Í garðinum er útisvið þar sem sagðar voru sögur og út um allt í garðinum voru sögusegjarar. Atli og Íris tóku þátt í leik sem fólst í því að þau þurftu að finna 9 sögusegjara. Hlusta á söguna og krossa við úr hvaða ævintýri sögubúturinn var. Þegar búið var að fylla út spjöldin skiluðum við þeim og fengum boðsmiða í frásagnamiðstöðina á morgun.
Gamla bíóinu var breytt í frásagnamiðstöð þar sem fólk situr í sal og hlustar á lifandi ævintýrafrásögn. Það verður gaman að fara á morgun og hlusta.

mánudagur, september 24, 2007

Allt að gerast

Við fengum skemmtilegt símtal í morgun. Reyndar tvö...
Atli hafði tekið Playstation2 spil með sér út og lagt frá sér við gangstéttina á meðan hann lék sér í garðinum hjá Petter. Spilið var svo horfið þegar hann ætlaði heim...:(
Símtalið var frá konu sem hafði séð auglýsinguna hans Atla uppi í búð . Hún hafði tekið spilið upp af gangstéttinni fyrir ca. tveimur vikum. Hélt að einhver hefði misst það og var búin að skima eftir auglýsingu...
Hitt símtalið var frá smiðnum. Hann kom í dag og gróf átta holur í garðinn. Nei, við ætlum ekki að hafa golfvöll...bara stoðir fyrir tröppur og skjólvegg.
Atli fór á Taekwon-do æfingu og dró Petter með sér. Þeir voru báðir spenntir (sérstaklega fyrir að fá galla) en Petter fannst armbeygjurnar erfiðar.

sunnudagur, september 23, 2007

Langur göngutúr og góður matur

Írisi finnst mikið sport að fá að kúra í barnavagni með sæng og kodda og skerminn uppi á meðan ég arka um. Hún er búin að biðja svo oft fallega um það undanfarið að ég lét undan henni í gær. Ég pakkaði henni í vagninn með sæng, kodda, teppi og tvær dúkkur og gekk allan Ganddalinn niður í miðbæ. Skórnir hennar Írisar voru með í för því hún þurfti reglulega að fara úr vagninum til að prófa alla leikvellina sem urðu á vegi okkar.
Í bænum hittum við Sigrúnu Erlu og Kjersti sem höfðu verið að skoða í búðir og borða á Kínaveitingastað. Við keyptum tvær peysur á Sigrúnu, tvær á Atla og pils og peysu á Írisi og gengum svo allan dalinn til baka og heim. Ferðin tók okkur rúma 5 klukkutíma.
Sigrún Erla var á hjóli og var komin heim á undan okkur og búin að elda kvöldmatinn handa okkur þegar við komum heim. Stafapasta með tómata- og skinkusósu, fersku salati og rifnum osti. Nammm hvað maturinn var góður!...enda við ekkert búnar að borða í 5 tíma. Bara drekka vatn og djús og borða smá laugardagsnammi :)

Í dag er rok og rigning. Atli er hjá vini sínum og Íris er með vinkonu í heimsókn hjá sér. Sigrún Erla bakaði bláberjaköku og er núna að aðstoða pabba sinn við matseldina. Gott að hafa svona stóra stelpu sem getur bakað og eldað mat :)

fimmtudagur, september 20, 2007

Sigrún Erla kom með mér á taeKwon-do æfingu áðan og fannst ágætt. Hana langar svo að verða sterkari og fá stærri vöðva og aukið sjálfstraust og þá er TaeKwon-do alveg tilvalið. Þegar Atli sá okkur mæðgurnar í göllunum gíraðist hann allur upp og vill byrja líka. Ég ætla að leifa honum að prófa á mánudaginn. Átta til tólf ára æfa einu sinni í viku en 12-99 æfa tvisvar á öðrum dögum.

Nú er ég spennt að sjá hvort smiðirnir mæti á morgun að byggja tröppur af yfirbyggðu veröndinni minni niður í garðinn...

mánudagur, september 10, 2007

Við Sigrún Erla tókum lestina til Stavanger á laugardaginn og kíktum í búðir þar. Ég fann mér buxur og Sigrún fékk peysu og vesti. Þegar við komum aftur á lestarstöðina var lestin nýfarin og næsta ekki væntanleg fyrr en eftir klukkutíma! Við hringdum því í afganginn af fjölskyldunni og þau komu að sækja okkur á fjölskyldubílnum.
Það er töluverð umræða hér um að fólk eigi frekar að taka lest eða strædó en að vera að keyra allt á einkabílnum. Af umferðar- og umhverfisástæðum. Ef það á að virka verða þeir að fjölga lestarferðum um 400% að mínu mati.

Á sunnudaginn var gestkvæmt hjá okkur. Við fengum tvær fjölskyldur í heimsókn sem mættust í dyrunum!

Í dag eru svo kosningar og ég fór að kjósa í fyrsta sinn í Noregi! Bæði til bæjarstjórnar og í fylkisstjórn. Ég var vel undirbúin. Ég fór með Sigrúnu og Atla í bæinn um daginn og safnaði bæklingum frá flestöllum framboðunum (og blöðrum og rósum og brjóstsykri og grænmeti) og las þá vel og tók ákvörðun.

Við erum komin með dana í kjallarann svo nágrannakonan getur hætt að senda fráskildu vinkonurnar til að spyrjast fyrir um íbúðina.
Þeirri fyrri fannst íbúðin of lítil fyrir sig og tvær unglingsstelpur og sú seinni fékk nei frá okkur. Hún var með deilt foræði yfir hundi.

föstudagur, september 07, 2007

Hjúkk! Takk! Anna leysti bloggið úr álögum.
Við Atli erum sko búin að taka ofnæmislyf í allt sumar en erum hætt núna, enda kominn september.
Sigrún Erla fór til Íslands í byrjun sumarfrís og var þar þar til ég sótti hana í lok júlí, eins og kannski flestir sem lesa þetta blogg vita.
Við hin keyrðum til Kristiansand, mánudaginn, 16. júlí og tékkuðum okkur inn á "barnahótel". Við reyndum að leggja okkur til að vera hress fyrir kvöldið en enginn gat sofnað. Kl. 23 fórum við í Dýragarðinn þar sem var búið að útbúa leiksvið á strönd inni í vík. Leiksviðið var sandströnd með bryggju og leiksviðshúsum. Þarna voru stórir leikhúsljóskastarar og hljóðkerfi, allt undir berum himni. Við vorum í regngöllum því veðurspáin var þannig, en sem betur fer hélst hann þurr á meðan á leiksýningunni stóð. Leiksýningin var um sjálfan Kaptein Sabeltann, hinn ógnvænlega sjóræningja sem ræður yfir hinum 7 höfum. Það voru greifar og galdrakerlingar og alvöru sjóræningjaskip sem tóku þátt í sýningunni. Það var mjög gaman og ævintýralegt allt saman.
Um nóttina voru þrumur og eldingar og rigningin sem hafði verið spáð kom heldur betur.
Daginn eftir hafði planið verið að fara aftur í dýragarðinn og skoða betur dýrin og þorpið hans Kapteins Sabeltanns en þar sem það rigndi svo mikið ákváðum við að fresta því þar til daginn eftir. Við vorum því allan rigningardaginn á hótelinu sem var ekki leiðinlegt.
Í kjallaranum var heljarinnar leikherbergi með boltalandi, tölvuleikjum, púðaherbergi og allskonar borðspil. Íris og Atli skemmtu sér mjög vel þar. Börn á hótelinu fengu líka ókeypis ís og svo fórum við að sjálfsögðu í upphituðu útilaugina í rigningunni.
Um kvöldið borðuðum við á hlaðborðinu og þar var sér hlaðborð fyrir börnin. Svo gátu börnin fengið andlitsmálningu áður en barnadiskóið byrjaði. Það var bara fínt að nota þessa fínu aðstöðu á hótelinu fyrst við vorum að borga fyrir hana.
Á miðvikudeginum var orðið þokkalega þurrt. Við eyddum því deginum í dýragarðinum og fórum að sjálfsögðu í siglingu á "hinni svörtu dömu" hans Kapteins Sabeltanns áður en við keyrðum aftur heim til Sandnes.

Við keyrðum svo aftur til Kristiansand á afmælisdaginn hans Leifs, 17.ágúst og fórum í sumarbústað með mömmu, Bergþóru, Kristjáni, Stellu og Áslaugu Eddu. Það var gaman að vera með þeim og að skoða fallbyssuna sem drífur hálfa leið til Danmerkur.

Íris hélt upp á afmælið sitt á laugardaginn með að bjóða nokkrum krökkum úr götunni í kökupartý. Við foreldrarnir fórum svo á árlegan dansleik í tjaldi niðri á túni um kvöldið. Fyrst var hitað upp hjá Birni og Tone og svo var arkað niður í tjald og dansað fram yfir miðnætti.

Taekwon-do ið er byrjað aftur eftir 3 mánaða sumarpásu.
Ég hjólaði á fyrstu æfinguna á þriðjudaginn og var mjög stollt af því, enda ekki vön að hjóla. Það skilaði sér í harðsperrum tvo næstu daga. Í gær var svo aftur æfing en þá fór ég á bílnum, enda ennþá með harðsperrur. Það var kvennkynsþjálfari og ég hélt kannski að hún yrði aðeins mildari...en það var hinn mesti misskilningur. Ég er lurkum lamin. Gat varla bilt mér í rúminu í morgun. Rosalega hef ég gott af þessu. Gengur ekki að vera feitur og latur aumingi! Onei!