Hjúkk! Takk! Anna leysti bloggið úr álögum.
Við Atli erum sko búin að taka ofnæmislyf í allt sumar en erum hætt núna, enda kominn september.
Sigrún Erla fór til Íslands í byrjun sumarfrís og var þar þar til ég sótti hana í lok júlí, eins og kannski flestir sem lesa þetta blogg vita.
Við hin keyrðum til Kristiansand, mánudaginn, 16. júlí og tékkuðum okkur inn á "barnahótel". Við reyndum að leggja okkur til að vera hress fyrir kvöldið en enginn gat sofnað. Kl. 23 fórum við í Dýragarðinn þar sem var búið að útbúa leiksvið á strönd inni í vík. Leiksviðið var sandströnd með bryggju og leiksviðshúsum. Þarna voru stórir leikhúsljóskastarar og hljóðkerfi, allt undir berum himni. Við vorum í regngöllum því veðurspáin var þannig, en sem betur fer hélst hann þurr á meðan á leiksýningunni stóð. Leiksýningin var um sjálfan Kaptein Sabeltann, hinn ógnvænlega sjóræningja sem ræður yfir hinum 7 höfum. Það voru greifar og galdrakerlingar og alvöru sjóræningjaskip sem tóku þátt í sýningunni. Það var mjög gaman og ævintýralegt allt saman.
Um nóttina voru þrumur og eldingar og rigningin sem hafði verið spáð kom heldur betur.
Daginn eftir hafði planið verið að fara aftur í dýragarðinn og skoða betur dýrin og þorpið hans Kapteins Sabeltanns en þar sem það rigndi svo mikið ákváðum við að fresta því þar til daginn eftir. Við vorum því allan rigningardaginn á hótelinu sem var ekki leiðinlegt.
Í kjallaranum var heljarinnar leikherbergi með boltalandi, tölvuleikjum, púðaherbergi og allskonar borðspil. Íris og Atli skemmtu sér mjög vel þar. Börn á hótelinu fengu líka ókeypis ís og svo fórum við að sjálfsögðu í upphituðu útilaugina í rigningunni.
Um kvöldið borðuðum við á hlaðborðinu og þar var sér hlaðborð fyrir börnin. Svo gátu börnin fengið andlitsmálningu áður en barnadiskóið byrjaði. Það var bara fínt að nota þessa fínu aðstöðu á hótelinu fyrst við vorum að borga fyrir hana.
Á miðvikudeginum var orðið þokkalega þurrt. Við eyddum því deginum í dýragarðinum og fórum að sjálfsögðu í siglingu á "hinni svörtu dömu" hans Kapteins Sabeltanns áður en við keyrðum aftur heim til Sandnes.
Við keyrðum svo aftur til Kristiansand á afmælisdaginn hans Leifs, 17.ágúst og fórum í sumarbústað með mömmu, Bergþóru, Kristjáni, Stellu og Áslaugu Eddu. Það var gaman að vera með þeim og að skoða fallbyssuna sem drífur hálfa leið til Danmerkur.
Íris hélt upp á afmælið sitt á laugardaginn með að bjóða nokkrum krökkum úr götunni í kökupartý. Við foreldrarnir fórum svo á árlegan dansleik í tjaldi niðri á túni um kvöldið. Fyrst var hitað upp hjá Birni og Tone og svo var arkað niður í tjald og dansað fram yfir miðnætti.
Taekwon-do ið er byrjað aftur eftir 3 mánaða sumarpásu.
Ég hjólaði á fyrstu æfinguna á þriðjudaginn og var mjög stollt af því, enda ekki vön að hjóla. Það skilaði sér í harðsperrum tvo næstu daga. Í gær var svo aftur æfing en þá fór ég á bílnum, enda ennþá með harðsperrur. Það var kvennkynsþjálfari og ég hélt kannski að hún yrði aðeins mildari...en það var hinn mesti misskilningur. Ég er lurkum lamin. Gat varla bilt mér í rúminu í morgun. Rosalega hef ég gott af þessu. Gengur ekki að vera feitur og latur aumingi! Onei!