sunnudagur, október 28, 2007

Forskot á Halloween

Við tókum smá forskot á Halloween í gær og buðum 3 krökkum að borða með okkur fjölskyldunni. Á matseðlinum var myglað spaghetti, blóðsósa með bitum af dauðum grís og flösuflögur (spínatpasta, pastasósa, skinkubitar og rifinn ostur). Í eftirrétt var heilastappa (grænt og rautt hlaup með vanillusósu) og drukkið piss (fanta) með.
Krakkarnir fóru svo í leiki á eftir og graskerið var skorið út.
Á miðvikudaginn er Halloween og þá fara krakkarnir í búningum í hús að sníkja nammi.

Í dag voru bakaðar graskersbollur og graskersmuffins og afgangurinn af innvolsinu úr graskerinu settur í frysti þar til við ákveðum að hafa graskersböku í matinn.

þriðjudagur, október 23, 2007

UNICEF

Á morgun er dagur sameinuðu þjóðanna og öll þessi vika er tileinkuð UNICEF, barnahjálp sameinuðu þjóðanna, hér í Noregi allavega.
Sjónvarpið var með söfnunarþátt og fólk gengur í hús og safnar.
Skólastarfið hjá Atla snýst mikið um UNICEF þessa vikuna. Auk þess að fræðast um málefnið taka börnin þátt í að safna peningum, t.d. með flöskusöfnunarkeppni milli bekkjadeilda og áheitahlaupi.
Atli kom sveittur heim úr skólanum í dag klæddur stuttbuxum, bol og kuldastígvélum. Hann hafði tekið þátt í áheitahlaupi kringum skólann og hlaupið 22 hringi (6 km). Fyrir það fær UNICEF 110 norskar krónur. Aðeins tveir aðrir höfðu náð að hlaupa meira eða fyrir 120 kr. hvor. Greyið var komið með hælsæri af kuldastígvélunum. Mamma hans hefði nú átt að senda hann í strigaskóm :þ

Brueland barnehage stendur fyrir sölu á pottrétti og bollum á morgun til styrktar UNICEF. Börnin sjá að miklu leiti sjálf um matseldina og skemmta matargestum með kórsöng. Við Sveinn ætlum bæði að mæta :)

sunnudagur, október 21, 2007

Skautahöllin

Fórum á skauta í skautahöllinni í dag. Atli og Sigrún eru ágæt á skautum en Íris var að fara í fyrsta sinn. Ég þorði ekki annað en að leigja líka skauta á mig svo ég gæti aðstoðað hana á svellinu. Það varð ekki alveg þannig... Ég fór síðast á skauta fyrir rúmum tuttugu árum og það voru listdansskautar með bremsu framan á. Þeir sem ég leigði í dag voru hokkískautar með engri bremsu bara jafnsleift á alla kanta. Ég átti því fullt í fangi með sjálfa mig.
Sem betur fer voru tómir ölkassar á svellinu til að styðja sig við (bráðsniðugt) svo við Íris gátum báðar hangið á þeim. Þegar mig var farið að verkja í iljarnar tóku eldri systkinin við Írisi og eftir smá stund var hún farin að sleppa bæði kössum og systkinum. Hún var bara rosa dugleg.

Eftir skautana kom amman með okkur heim í vöfflur. Við bökuðum grófar vöfflur með klíði, haframjöli og súkkulaðibitum. Þær voru bragðgóðar en mjög erfiðar í steikingu. Þær héldu dauðahaldi í vöfflujárnið og það var mjög erfitt að ná þeim úr.

Amman og mamman tóku svo smá skúrk í flutningunum hennar Bergþóru og keyrðu 3 bílhlöss heim til ömmunnar. Bergþóra þarf að losa íbúðina sína fyrir mánaðarmótin og ætlar að vera hjá mömmu þar til í febrúar þegar hún fer til Indlands í 3 mánaða skóla.

fimmtudagur, október 04, 2007

Tröppurnar tilbúnar

Smiðirnir eru búnir með verkið. Nú eru þessar fínu tröppur komnar af efri palli og niður á þann neðri og traust og góð skjólgirðing við pallinn líka. Það er allt annað að sjá þetta!