Jólin búin
Þessa dagana er gola og rigning (ég kalla þetta allavega ekki rok eftir að hafa búið á Íslandi ;)) og myrkur frá kl 6 á kvöldin. Mér finnst mest kósí eftir vinnudaginn að kúra í sófanum við sjónvarpið og kertaljós.
Ég skráði mig í eitt fag hjá viðskiptaháskólanum í Noregi og er núna að lesa norsku skattalögin utanskóla. Prófið er 10. júní! Ágætt að halda við þessum litlu gráu og bæta sig í því sem maður er að sýsla við dags daglega þó skattalögin séu kannski ekki það mest spennandi... en allt er skemmtilegt ef maður kann það!
Við erum með fokhelt herbergi uppi á efri hæðinni hjá svefnherbergjunum þar sem draumurinn er að gera baðherbergi. Við erum búin að safna fyrir baðinu og í raun ekki eftir neinu að bíða, ég bara þori varla. Iðnaðarmenn hafa fengið svo slæmt orð á sig í gegnum tíðina fyrir að koma ekki, klára ekki og allt það að mig óar við að þurfa að eiga við þá. Verðum samt að fara að gera eitthvað. Nú erum við fimm um eitt baðherbergi sem er 2 fermetrar og þvottavél og þurrkari þar inni líka svo maður þarf að skáskjóta sér til að komast inn. Gengur ekki mikið lengur.