þriðjudagur, mars 25, 2008

Það mistekst alltaf allt þegar maður er að sýna!...er það ekki?
Í gærkvöldi varð leigjandinn í kjallaranum var við vatnsleka í eldhúsinu hjá sér. Sveinn fór niður og sá vatnið leka og lokaði fyrir aðalinntakið. Það fyrsta sem ég gerði í morgun var svo að redda pípara. Hringdi fyrst í einn sem ætlaði að reyna að koma í dag, en gat ekki lofað. Ég hringdi því í annan sem sagðist myndi koma og hjálpa mér. Ég hringdi þá í númer eitt til að segja að hann þyrfti ekki að koma, en hann var þá á leiðinni, svo ég hringdi í númer tvö til að afpanta hann.
Þegar píparinn kom og við skrúfuðum frá vatninu, gerðist EKKERT. Við létum vatn renna, fylltum vask og létum renna úr, hann skoðaði rörin en sá ekkert að og ekkert vatn lak. Merkilegt!
Hann trúði mér samt alveg og fór út í bæ að laga klósett og ætlaði svo að koma aftur.
Ég skaust í sturtu á meðan og burstaði tennur og tók til í eldhúsinu, vaskaði upp og setti í þvottavél og naut þess að hafa vatn. Sem betur fer :? ...fór þá að leka svo píparinn kom ekki aðra fýluferð. Hann var svo hér fram á miðjan dag að skipta út rörinu frá hitadúnknum í kjallaranum upp í vaskinn í eldhúsinu.

föstudagur, mars 21, 2008

Föstudagurinn langi

Við nenntum ekki að láta okkur leiðast í dag (enda leiðist okkur aldrei) og kíktum með Söndru, Ölni og krökkunum í fiðrildagarðinn. Þar getur maður farið inn til fiðrildanna og haldið á þeim! Á eftir settumst við niður og fengum okkur vöfflur og ís og krakkarnir teiknuðu fiðrildi.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Sirdalen

Við ákváðum í gær að fara í Sirdalen í dag. Það var áður en við litum á veðurspána. Spáin var kuldi, rok, hálka, snjóstormur. En Íris skildi það ekki. Það var búið að ákveða að fara og þá var ekki hægt að hætta við. Stelpurnar í leikskólanum eru alltaf að tala um Sirdalen og Íris veit að þar er eitthvað skemmtilegt.
Í staðinn fyrir að sitja heima með vonsvikin börn, klæddum við okkur vel, hituðum kakó á brúsa, tókum með epli, kex og snjóþotur og keyrðum upp í fjöll.
Eftir klukkutíma keyrslu vorum við komin í Sirdalen. Við fundum ágætis snjóþotubrekku á milli fjallakofanna og renndum okkur þar til Íris fékk nóg og vildi fara í bílinn með pabba að drekka kakó. Okkur var ekki kalt, við vorum svo vel klædd. En það var orðið erfitt að greina misfellur í brekkunni vegna snjófoksins. Við hin renndum okkur tvær langar ferðir í viðbót og fórum svo í kakó-drekkutímann út í bíl. Við stoppuðum ca. einn og hálfan tíma í Sirdalnum allt í allt og keyrðum svo í klukkutíma heim aftur.
Nú veit Íris Adda allavega hvað ,,Sirdalen" er!
(myndir í albúminu)

miðvikudagur, mars 19, 2008

Nú er ég líka komin í páskafrí!


Ég var alein í vinnunni í dag og vann fram að hádegi. Þá var kominn hefðbundinn frídagur í Noregi. Við fórum svo öll í fjölskylduleiðangur í matarbúðina og settum persónulegt upphæðarmet á kassastrimlinum!

Gleðilegt páskafrí!mánudagur, mars 17, 2008

Páskafrí og sirkus

Sveinn og krakkarnir eru komin í páskafrí en ég fór að vinna í dag. Ágætisfrí reyndar í sjálfu sér að þurfa bara að hugsa um sjálfa mig í morgun.
Mamma var svo almennileg að taka krakkana með sér í sirkus. Ég get ekki farið með þeim sjálf út af hestunum. Ég og hestar saman í tjaldi er ekki mjög heilsusamlegt.

sunnudagur, mars 16, 2008

Ljómandi sunnudagur

Rétt eftir hádegi fórum við Sigrún Erla með tveimur vinkonum okkar í keilu og svo út að borða á Pastabakaríið. Það var mjög skemmtilegt og huggulegt.
Á meðan voru Atli og Íris Adda heima með fullt af krökkum úr hverfinu og skemmtu sér konunglega í vorveðrinu.
Í kvöld fór ég svo í bíó með mömmu að sjá Flugdrekahlauparann. Það var gott að Sigrún Erla kom ekki með á hana. Ég var alveg nógu hrærð sjálf.

laugardagur, mars 15, 2008

Tombóla

Atli og Sigrún Erla héldu tombólu í dag á ganginum í Maxi verslunarmiðstöðinni til styrktar Solstråler. Það eru samtök sem styðja skólaheimili á Indlandi. Það var ekki beint slegist um miðana, en þau náðu þó að safna 850 norskum krónum =11.600 íslenskar.

laugardagur, mars 08, 2008

Við erum hér enn

Hér gerist margt og mikið og mér leiðist aldrei!
Í dag: 12 stk. 9 ára strákar hlaupandi um timburhús á tveimur hæðum í fjársjóðsleit. Pizzur, gos, sleikjóar, blöðrur og kaka. Fjórir í skilmingakeppni, einn með svarthöfðagrímu másandi um, annar skjótandi úr transformersbyssu. Íris dj með 100 íslensk barnalög en píanóinu var fljótlega lokað.
Allt heppnaðist vel. Allir ánægðir og síðustu gestirnir fóru 2 tímum eftir að afmælið var búið.