fimmtudagur, júlí 17, 2008

Landa

Við fórum í skemmtilegan bíltúr í dag. Keyrðum til Lauvvik og tókum litla bílaferju þaðan til Forsand. Keyrðum í gegnum fjall og yfir stóra brú og heimsóttum bronsaldarbæinn ,,Landa". Bærinn er byggður í upprunalegri mynd. Nákvæm eftirlíking af bæ frá bronsöld sem stóð þarna á nákvæmlega sama stað fyrir 3000 árum. Burðarbitarnir og eldstæðið eru á nákvæmlega sama stað og það var fyrir 3000 árum. Veggirnir eru fléttaðir með trjágreinum og svo steyptir með blöndu af mold, sandi, stráum og kúaskít. Gólfin eru úr sama efni. Þegar bærinn var endurreystur var reyndar ekki notaður kúaskítur í gólfin, bara veggina. Í dag eru gólfin öll sprungin, ekki veggirnir. Þannig að kúaskíturinn virkar eins og lím og kemur í veg fyrir sprungumyndanir. Þakið er stráþak eins og tíðkast í Danmörku. Inni fundust engar leifar né merki um rúm, en í svipuðum húsum í Danmörku frá sama tíma hafa fundist leifar af hengirúmum.
Á landareigninni hafa fundist merki um 250 hús frá mismunandi tímaskeiðum. Bronsaldarhúsið er elst frá ári 1000 fyrir Krist. Nýjustu húsin eru frá um 400 e.Kr. Smiðja/vinnuhús frá 400 e.Kr. hefur líka verið endurreist og þar inni fengum við að baka okkur brauð og úti í grasagarðinum fengum við að bragða á ýmsum kryddjurtum. Svo æfðum við okkur aðeins í bogfimi.
Næsta stopp var skólalóðin í Forsand þar sem krakkarnir prófuðu öll leiktækin.
Við keyrðum svo til Tau þar sem við tókum stærri bílaferju til Stavanger. Það fannst krökkunum sport, sérstaklega írisi sem hlakkar svo til að fara með ColorLine til Danmerkur. Við keyptum okkur hressingu um borð í bátnum, en komum svo við í Sandnes og keyptum kebab sem við tókum með heim.
Þetta var virkilega skemmtilegur dagur og Íris var orðin svo þreytt nú í kvöld að hún bað sjálf um að fá tannburstun svo hún gæti farið að sofa. (nokkrar nýjar myndir í albúminu)

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Nú erum við bara að gera allt það sem við ætluðum að gera einhverntíma þegar við hefðum tíma.
Ég er að mála gamla fururúmið hans Atla ljós-fjólublátt fyrir Írisi og Sveinn pússar niður eldhúsborðið. Við vonum að börnin séu hætt að hamra í borðið með hnífapörunum.

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Gleðilegt sumar!

Ég náði skattaprófinu!
Og ég er komin í 4 vikna sumarfrí. Næsti vinnudagur er 4. ágúst.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Bergen um helgina


Við mamma fórum til Bergen um helgina í algjöra ævintýraferð.
Veit varla hvar ég á að byrja því sagan er efni í heila bók. Stikla því bara á stóru:
Fréttum að Bettý frænka væri í Bergen að tæma ættaróðalið til 126 ára því húsið er selt og Bettý að flytja til Brooklyn. Eleanor systir hennar var einnig á staðnum að hjálpa henni. Við höfum aldrei séð þessar frænkur,bara heyrt talað um þær og drifum okkur í heimsókn, því nú var síðasti séns. Frænkurnar afhentu húsið og flugu til USA í morgun.
Rútuferðin aðra leið tók 5 tíma og 2 ferjur. Það gekk vel að finna húsið, en verr að finna frænkurnar. Smá misskilningur í gangi. Hittum þær þó fyrir rest og þær voru báðar yndislegar. Önnur norsk hin amerísk. Það voru því töluð 3 tungumál, en bara eitt í einu. Þegar við mamma vorum einar, töluðum við íslensku. Þegar Bettý var með okkur var bara töluð norska. Þegar við vorum allar 4 saman var töluð bandaríska. Við fórum þrjár, mamma, Bettý og ég, upp í Fløyen á laugardagskvöldi og gengum svo um miðbæinn. Gistum uppi á háalofti á Allegata 1 innan um mölflugur. Sem betur fer með minn eiginn svefnpoka renndan upp í háls. Sunnudagurinn fór í að hjálpa þeim að sortera; Hverju á að henda? Hvað á að taka með? Húsið var tæmt í fyrsta sinn í 126 ár. Svo tókum við rútuna aftur heim. Aðrir 5 tímar og 2 ferjur. Þetta var svo gaman að við mamma erum að spá í að hafa uppi á fleiri fjarskyldum ættingjum sem við höfum aldrei séð og tilkynna komu okkar.

Íris Adda teiknaði þessa fínu mynd af prinsessu sem hún ætlar að senda í teiknisamkeppni