Landa
Við fórum í skemmtilegan bíltúr í dag. Keyrðum til Lauvvik og tókum litla bílaferju þaðan til Forsand. Keyrðum í gegnum fjall og yfir stóra brú og heimsóttum bronsaldarbæinn ,,Landa". Bærinn er byggður í upprunalegri mynd. Nákvæm eftirlíking af bæ frá bronsöld sem stóð þarna á nákvæmlega sama stað fyrir 3000 árum. Burðarbitarnir og eldstæðið eru á nákvæmlega sama stað og það var fyrir 3000 árum. Veggirnir eru fléttaðir með trjágreinum og svo steyptir með blöndu af mold, sandi, stráum og kúaskít. Gólfin eru úr sama efni. Þegar bærinn var endurreystur var reyndar ekki notaður kúaskítur í gólfin, bara veggina. Í dag eru gólfin öll sprungin, ekki veggirnir. Þannig að kúaskíturinn virkar eins og lím og kemur í veg fyrir sprungumyndanir. Þakið er stráþak eins og tíðkast í Danmörku. Inni fundust engar leifar né merki um rúm, en í svipuðum húsum í Danmörku frá sama tíma hafa fundist leifar af hengirúmum.
Á landareigninni hafa fundist merki um 250 hús frá mismunandi tímaskeiðum. Bronsaldarhúsið er elst frá ári 1000 fyrir Krist. Nýjustu húsin eru frá um 400 e.Kr. Smiðja/vinnuhús frá 400 e.Kr. hefur líka verið endurreist og þar inni fengum við að baka okkur brauð og úti í grasagarðinum fengum við að bragða á ýmsum kryddjurtum. Svo æfðum við okkur aðeins í bogfimi.
Næsta stopp var skólalóðin í Forsand þar sem krakkarnir prófuðu öll leiktækin.
Við keyrðum svo til Tau þar sem við tókum stærri bílaferju til Stavanger. Það fannst krökkunum sport, sérstaklega írisi sem hlakkar svo til að fara með ColorLine til Danmerkur. Við keyptum okkur hressingu um borð í bátnum, en komum svo við í Sandnes og keyptum kebab sem við tókum með heim.
Þetta var virkilega skemmtilegur dagur og Íris var orðin svo þreytt nú í kvöld að hún bað sjálf um að fá tannburstun svo hún gæti farið að sofa. (nokkrar nýjar myndir í albúminu)